Benedikt tekur við Njarðvík

Brenton Birmingham varaformaður körfuknattleiksdeildar UMFN og Kristín Örlygsdóttir formaður með …
Brenton Birmingham varaformaður körfuknattleiksdeildar UMFN og Kristín Örlygsdóttir formaður með Benedikt Guðmundsson sín á milli þegar samningar voru undirritaðir. Ljósmynd/UMFN

Benedikt Guðmundsson kemur til með að taka við sem þjálfari meistaraflokks karla hjá Njarðvík í körfuknattleik og voru samningar þess efnis undirritaðir á dögunum.

Um er að ræða þriggja ára samning milli Benedikts og UMFN en hann mun einnig taka að sér þjálfun yngri flokka hjá félaginu. Benedikt er engin nýliði í greininni eins og kannski flestir vita en síðast var hann við stjórnvölinn hjá kvennaliði KR og karlamegin þjálfaði hann síðast hjá liði Þórs á Akureyri.

Benedikt stýrði liði KR til Íslandsmeistaratitils árið 2007 og þá einmitt sigruðu KR-ingar feiknasterkt lið Njarðvíkinga í úrslitarimmunni. Benedikt gerði KR einnig að Íslandsmeisturum árið 2009. 

Benedikt tekur við af Einar Árna Jóhannssyni sem stýrt hafði liðinu síðustu ár en þess má einnig geta að Benedikt er hálfa vegu kominn með samning sinn við KKÍ sem A-landsliðsþjálfari kvenna. 

Njarðvík hafnaði í 9. sæti Dominos-deildarinnar á nýliðnu tímabili og var um tíma í mikilli fallhættu. Liðið vann níu af 22 leikjum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert