Keflavík hafði betur gegn KR í fyrsta leik

Calvin Burks jr. sækir að KR-ingum í Keflavík í kvöld.
Calvin Burks jr. sækir að KR-ingum í Keflavík í kvöld. mbl.is/Skúli B. Sig

Það var óbeisluð stemmning í kvöld þegar Keflvíkingar og KR léku fyrstu viðureign sína í einvíginu í undanúrslitum Domino-sdeildar karla í körfuknattleik. Eftir jafnan leik framan af voru það Keflavík sem að lönduðu 89:81 sigri á loka metrum leiksins. Keflavík leiddi með 1 stigi í hálfleik en mikið jafnræði var sem fyrr segir megnið af leiknum. 

Það má í raun segja að úrslitakeppninn sé komin í fullt form. Fullt af áhorfendum og áttar maður sig betur á því hversu miklu máli stuðningsmenn skipta bæði liðum sínum og kappleiknum sjálfum eftir að hafa leikið fyrir tómum húsum megnið af vetrinum.  Bæði þessi lið skarta hressum stuðningsmannasveitum sem létu hverja sneiðina flakka sín á milli en allt þó að mestu saklaust. 

Það var hinsvegar lítið sakleysið í leiknum sjálfum þó svo að farið var að flestum reglum.  Hart var barist milli liðana enda mikið í húfi í þessum fyrsta leik. Að sigra fyrsta leik einvígis er gríðarlega mikilvægt og þá sérstaklega fyrir heimaliðið. Keflvíkingar náðu að verja heimavöllinn en mikið púður fór í þennan leik frá báðum liðum.   19 sinnum skiptust liðin á forystunni í leiknum og ítrekar það jafnræði liðanna þetta kvöldið og er undirritaður nokkuð viss um að þetta komi til með að haldast út þetta einvígi. KR nýkomnir úr ansi þéttu einvígi gegn Val og annað eins að taka við. Maður spyr sig því hvað kemur til með að gefa eftir.  Títtrætt er þunnskipaður bekkur Keflvíkinga en hann svo sem skilaði sínu í kvöld en þó helst til varnarmegin. Áhyggjuefni að bekkur Keflvíkinga skili aðeins 9 stigum gegn heilum 24 stigum frá varamönnum KR. 

Þjálfarar þessara beggja lið miklir refir og leita grimmt á veikleika andstæðinga sinna. Fróðlegt verður að sjá hvað þeir koma til með að skoða úr þessum leik og laga til fyrir þann næsta.  En Keflvíkingar eiga heimavöllinn og hafa ekki tapað þar í allan vetur. Einvígið fer nú með KR á einn allra erfiðasta heimavöll sem þeir hafa spilað á í vetur, sinn eigin.  Tveir tapaðir leikir í síðustu umferð sanna það ásamt því að þeir settu vafasamt met þar í deildarkeppninni.  Af einstaklingurm þá var Domynikas Milka atkvæðamestur Keflvíkinga með 26 stig. Þrátt fyrir að KR hafi slegið út Val í síðustu umferð þá fá þeir að eiga við annan Val í þessu einvígi. Valur Orri Valsson þarf að minnast á eftir kvöldið þar sem hann var hvað eftir annað að valda KR vandræðum og spilaði hann gríðarlega vel þetta kvöldið þó svo að tölfræðiblaðið sýni það ekki til fulls.  Hjá KR var Ty Sabin þeirra atkvæðamestur með 29 stig og þessi stórkostlegi leikmaður á eftir að koma til með að taka yfir einn leik í þessari seríu, ég fullyrði það!  Keflvíkingar hafa hinsvegar varnarmenn í Herði Axel og svo Reggie Dupree til að trufla hann, hvort það dugi á eftir að koma í ljós. 

Blue-höllin, Dominos deild karla, 01. júní 2021.

Gangur leiksins:: 8:5, 14:13, 21:17, 26:23, 31:27, 35:32, 37:38, 43:42, 46:48, 50:56, 56:58, 63:60, 69:68, 76:75, 80:77, 89:81.

Keflavík: Dominykas Milka 26/12 fráköst, Deane Williams 18/14 fráköst, Hörður Axel Vilhjálmsson 13/8 stoðsendingar, Calvin Burks Jr. 12/5 fráköst, Valur Orri Valsson 11/6 fráköst, Reggie Dupree 7, Ágúst Orrason 2.

Fráköst: 29 í vörn, 13 í sókn.

KR: Tyler Sabin 29/9 fráköst, Brandon Joseph Nazione 16/5 fráköst, Brynjar Þór Björnsson 14, Matthías Orri Sigurðarson 11/5 stoðsendingar, Þórir Guðmundur Þorbjarnarson 5/7 fráköst/5 stoðsendingar, Jakob Örn Sigurðarson 3, Helgi Már Magnússon 3.

Fráköst: 22 í vörn, 8 í sókn.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Davíð Kristján Hreiðarsson, Gunnlaugur Briem.

Áhorfendur: 446

Keflavík 89:81 KR opna loka
99. mín. skorar
mbl.is