Þéttum vörnina og hittum svo eiginlega úr öllum skotum

Lárus Jónsson, þjálfari Þórs frá Þorlákshöfn.
Lárus Jónsson, þjálfari Þórs frá Þorlákshöfn. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Lárus Jónsson, þjálfari Þórs frá Þorlákshöfn, var að vonum ánægður með öruggan 115:92 sigur sinna manna gegn Stjörnunni í þriðja leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins í körfuknattleik karla í Þorlákshöfn í kvöld.

„Þetta var mjög góður leikur hjá okkur. Í fyrri hálfleik vorum við allt í lagi varnarlega, við vorum svona aðeins að gleyma okkur í varnarfærslum. Mér fannst við stundum gefa kannski röngum mönnum opin skot.

[Alexander ] Lindqvist var að opnast of mikið og þeir voru með mjög háa þriggja stiga prósentu í hálfleik, betri heldur en við. Svo náðum við aðeins að þétta vörnina í þriðja leikhluta og við hittum úr eiginlega öllum skotum,“ sagði Lárus í samtali við mbl.is eftir leik.

Að endingu voru Þórsarar enda með stórkostlega skotnýtingu í þriggja stiga tilraunum, 60 prósent, á meðan Stjarnan endaði með 34 prósent skotnýtingu. „Já, þeir voru með 53 prósent og við 48 eða 49 prósent í hálfleik. Taflið snerist við þá,“ sagði hann.

Þór spilaði mjög góðan varnarleik, þá sérstaklega í síðari hálfleik, og hittu Stjörnumenn varla úr skoti fyrri hluta fjórða og síðasta leikhluta.

„Við náðum að klukka þá vel í fjórða leikhluta. Svo var leikurinn svo gott sem búinn þannig að það er ekki alveg að marka hvernig þetta fer í lokin. Þá reyndi Arnar [Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar] að koma með pressu og gambla, þá fengum við stundum mjög auðveldar körfur í staðinn.

Lokaskorið gefur ekki alveg rétta mynd. Við vorum komnir með yfirburði í lok þriðja leikhluta og þeir náðu ekki að koma til baka, alla vega ekki með sínum venjulega leik og þeir þurftu að fara út úr sínu leikplani og því fór sem fór,“ sagði Lárus.

Þór leiðir einvígið 2:1 og mætast liðin í fjórða leik næstkomandi miðvikudagskvöld. Þar geta Þórsarar tryggt sér sæti í úrslitum Íslandsmótsins með sigri.

„Mér líst bara ágætlega á þann leik. Núna þurfa strákarnir bara að koma sér niður á jörðina. Það skiptir engu máli hvort við unnum með einu, 15 eða 20 stigum í kvöld.

Ég myndi segja að það sé enn þá pressa á okkur að fara og klára leikinn í Ásgarði, að sýna það að við getum unnið þar tvisvar í röð. Strákarnir verða bara að átta sig á því og gleyma þessum leik um leið og þeir leggjast á koddann í kvöld,“ sagði Lárus að lokum ákveðinn í samtali við mbl.is.

mbl.is