Keflavík í úrslit - sigurgöngu KR er lokið

Keflvíkingurinn Hörður Axel Vilhjálmsson með fjóra KR-inga í kringum sig …
Keflvíkingurinn Hörður Axel Vilhjálmsson með fjóra KR-inga í kringum sig í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson

Eftir sjö ár af einokun karlaliðs KR á Íslandsmeistaratitli karla í körfuknattleik verða nýir meistarar krýndir þetta árið því í kvöld kláruðu Keflvíkingar einvígi sitt gegn Vesturbæjarliðinu og það með stæl.

88:70 varð niðurstaða þetta kvöldið og 3:0 í einvíginu. Keflvíkingar eru með harðan Keflavíkurvindinn í seglin og stefna ósigraðir á þann stóra þetta árið.

„Keflvíkingar vil ég meina að séu með eitt sterkasta lið landsins í dag og augljós meistaraefni. Þegar þeir loksins komust í gang sýndu þeir að þeir spila nánast fölskvalaust og fá lið sem eiga séns í þennan hóp í þessum ham.“

Undirritaður lét þessi orð í blaðið í öðrum leik tímabilsins og í raun hefur lítið breyst síðan. Keflvíkingar eru langsterkasta liðið sem stendur og með fullri virðingu fyrir þeim öðrum tveimur liðum sem eftir eru í „hattinum“ þá sé ég hvorugt þeirra eiga möguleika á að vinna heila seríu gegn þessu gríðarlega sterka Keflavíkurliði.

Heimamenn mættu vel gíraðir í körfuknattleik og strax á upphafsmínútum voru þeir komnir í 12 stiga forystu, sem var líkast til ein mesta forysta einvígisins fram að þessu. Þarna var tónninn strax settur fyrir kvöldið og studdir dyggilega af fullri höll spiluðu þeir gríðarlega vel.

Það var rétt í upphafi seinni hálfleiks sem smá hikst kom á leik þeirra en ekkert í raun sem ógnaði sigri þeirra af alvöru.

KR-ingar voru allt kvöldið að elta, náðu að halda muninum í þessum 10 stigum ca. en komust aldrei nær Keflvíkingum en það. Miklu munaði um Tyler Sabin sem fram til þessa hefur reynst liðum ansi erfiður sóknarlega. Sabin komst í raun aldrei í takt við þennan leik og sama má í raun segja um marga aðra leikmenn KR þetta kvöldið.

Jakob hættur en óvíst með Helga

„Þeir virðast vera svolítið að spila eins og við gerðum þegar við vorum upp á okkar besta. Yfirvegun yfir þeirra leik og stjórna hlutunum,“ sagði Helgi Már Magnússon leikmaður KR eftir leik í kvöld.

Helgi vildi ekki gefa það formlega upp að hann myndi leggja skóna á hilluna en félagi hans Jakob Örn Sigurðarson sagðist eftir leik vera búinn að ákveða að hætta.

Keflvíkingar bíða nú fregna úr einvígi Þórsara úr Þorlákshöfn og Stjörnumanna en staðan þar er 2:1 en vinna þarf 3 leiki til þess að komast í úrslitaeinvígið gegn Keflavík.

Gangur leiksins:: 7:2, 18:4, 18:9, 22:14, 24:20, 34:22, 43:29, 47:34, 49:41, 54:43, 59:47, 65:53, 69:59, 75:63, 82:66, 88:70.

Keflavík: Deane Williams 26/9 fráköst, Calvin Burks Jr. 23/4 fráköst, Dominykas Milka 22/13 fráköst/3 varin skot, Arnór Sveinsson 6, Valur Orri Valsson 5/4 fráköst/7 stoðsendingar, Ágúst Orrason 3, Hörður Axel Vilhjálmsson 3/7 fráköst/13 stoðsendingar.

Fráköst: 28 í vörn, 9 í sókn.

KR: Brandon Joseph Nazione 24/7 fráköst, Tyler Sabin 14/5 fráköst, Jakob Örn Sigurðarson 9, Þórir Guðmundur Þorbjarnarson 7/7 fráköst, Matthías Orri Sigurðarson 7, Brynjar Þór Björnsson 5, Helgi Már Magnússon 4.

Fráköst: 19 í vörn, 8 í sókn.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Rögnvaldur Hreiðarsson, Davíð Kristján Hreiðarsson.

Áhorfendur: 437

Keflavík 88:70 KR opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert