Mikill liðstyrkur til Keflavíkur

Jaka Brodnik leikur með Keflvíkingum á komandi keppnistímabili.
Jaka Brodnik leikur með Keflvíkingum á komandi keppnistímabili. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Körfuknattleikskappinn Jaka Brodnik mun leika með Keflavík á komandi keppnistímabili í úrvalsdeild karla. Þetta staðfesti félagið á samfélagsmiðlum sínum í gærkvöldi.

Jaka Brodnik hefur leikið á Íslandi frá árinu 2018 þegar hann samdi við Þór frá Þorlákshöfn en hann hefur leikið með Tindastóli á Sauðárkróki undanfarin tvö tímabil. 

Hann skoraði 15 stig, tók sex fráköst og gaf tvær stoðsendingar að meðtali með Tindastóli í vetur en liðið féll úr leik í átta liða úrslitum Íslandsmótsins eftir 3:0-tap gegn Keflavík.

Jaka sem hefur stimplað sig inn sem einn af bestu leikmönnum Dominos-deildar undanfarin ár, mun smellpassa inn í okkar lið og við vitum að það verður tekið vel á móti þessum gæðaleikmanni,“ segir meðal annars í tilkynningu Keflvíkinga.

mbl.is