Viss um að við lumum á einhverju

Gunnar Ólafsson í Garðabænum í kvöld. Hann skoraði tíu stig …
Gunnar Ólafsson í Garðabænum í kvöld. Hann skoraði tíu stig fyrir Stjörnuna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Körfuknattleiksmaðurinn Gunnar Ólafsson segir Stjörnuna hafa bætt upp fyrir arfaslakan leik liðsins í Þorlákshöfn í vikunni með sannfærandi 78:58-sigri á Þórsurum í undanúrslitum Íslandsmótsins í Garðabænum í kvöld.

Með sigrinum tókst Stjörnunni að krækja í oddaleik en sigurinn í kvöld var glæsilegur, sérstaklega í ljósi þess að Þórsarar fóru illa með Garðbæinga síðast, unnu þá 115:92. „Við töluðum um það að vera aðeins harðari. Við erum búnir að vera, sérstaklega í seinasta leik, aumir. Engum af okkur leið vel eftir síðasta leik, við töpuðum á öllum sviðum körfuboltans svo ég vitni bara í Ægi,“ sagði Gunnar í samtali við mbl.is strax að leik loknum. „Við bættum þetta upp með vörninni í kvöld, við viljum spila svona og nú þurfum við að gera það oftar.“

Liðin mætast í oddaleik í Þorlákshöfn á laugardaginn og kemur þá í ljós hvort liðið mætir Keflavík í úrslitum. Gunnar segir skipta máli að vera með hausinn rétt stilltan fyrir oddaleik og pressuna sem honum fylgir, en hann hefur þó líka trú á að þjálfarateymi liðsins lumi á einhverju nýju. „Ég er viss um að þjálfarateymið okkar laumar á einhverju taktísku, við erum með það gott teymi. En auðvitað snýst þetta líka um að hafa hausinn rétt stilltan og við mætum klárir til leiks á laugardaginn, það er klárt mál.“

mbl.is