Fjórir fyrrverandi þjálfarar undirbúa heimaleik liðsins

Vestri mætir Hamri í fjórða sinn í kvöld. Hér er …
Vestri mætir Hamri í fjórða sinn í kvöld. Hér er Hilmir Hallgrímsson, 19 ára gamall leikmaður Vestra, á fullri ferð í leik liðanna. Ljósmynd/Anna Ingimars

Vestri getur í kvöld tryggt sér sæti í úrvalsdeild karla í körfuknattleik en í skemmtilegri færslu á Facebook-síðu Vestfjarðafélagsins kemur fram að fjórir fyrrverandi þjálfarar liðsins hafi lagt hönd á plóg við undirbúning síðasta heimaleiks.

Væntanlega koma þeir líka við sögu í kvöld þegar Vestri tekur á móti Hamri klukkan 19.15 í íþróttahúsinu á Ísafirði en það er fjórða viðureign félaganna. Staðan er 2:1, Vestramönnum í hag, og þeir því orðnir að úrvalsdeildarfélagi í kvöld ef úrslit falla með þeim.

Í færslunni kemur fram að í síðasta leik liðanna hafi Guðni Guðnason skrifað leikskýrsluna, Birgir Örn Birgisson hafi grillað hamborgara og þeir Baldur Ingi Jónasson og Yngvi Páll Gunnlaugsson hafi tekið til hendinni í uppsetningu og frágangi fyrir og eftir leik. Þessir fjórir hafa sem sagt allir á einhverjum tíma þjálfað meistaraflokkslið Vestra eða KFÍ eins og liðið hét áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert