Sannfærandi Þórsarar flugu í úrslitin

Ægir Þór Steinarsson og Ragnar Örn Bragason berjast í fjórða …
Ægir Þór Steinarsson og Ragnar Örn Bragason berjast í fjórða leik liðanna í Garðabænum síðastliðinn miðvikudag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þór frá Þorlákshöfn vann frábæran 92:74 sigur gegn Stjörnunni á heimavelli í oddaleik liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins í körfuknattleik karla í kvöld og tryggði sér þar með sæti í úrslitunum gegn Keflavík. Stórkostlegur síðari hálfleikur heimamanna lagði grunninn að sigrinum.

Stjörnumenn byrjuðu leikinn af miklum krafti þar sem Ægir Þór Steinarsson gaf tóninn með því að setja fyrsta þriggja stiga skotið niður. Í kjölfarið fylgdu nokkrir þristar í viðbót og gestirnir voru komnir með átta stiga forystu, 6:14, um miðjan fyrsta leikhluta.

Mest náðu Stjörnumenn 11 stiga forystu í fyrsta leikhluta, 11:22, og voru með níu stiga forystu að honum loknum, 17:26.

Í öðrum leikhluta byrjuðu Þórsarar af miklum krafti og skoruðu fyrstu fimm stig hans á fyrstu mínútunni. Staðan orðin 22:26 en þá tók við afar góður kafli hjá Stjörnumönnum, sem náðu mest 13 stiga forystu í leikhlutanum, 26:39.

Þórsarar voru þó ekkert á því að gefast upp og leiddi Larry Thomas góða endurkomu heimamanna með átta stigum, þar af tveimur þristum, á skömmum tíma. Færðust heimamenn sífellt nær og náðu að minnka forystuna í aðeins þrjú stig áður en fyrri hálfleikurinn var úti.

Staðan í leikhléi 44:47, Stjörnumönnum í vil, eftir skemmtilegan fyrri hálfleik þar sem þriggja stiga skotnýting gestanna var sérstaklega góð, eða 45 prósent.

Þórsarar komu af gífurlegum krafti í síðari hálfleik. Thomas hélt uppteknum hætti strax í upphafi og jafnaði metin í 47:47 með laglegum þristi. Styrmir Snær Þrastarson skoraði svo tvisvar í röð undir körfunni, auk þess sem Thomas setti niður tvö vítaskot.

Þórsarar voru ekki hættir og Callum Lawson setti einnig niður þrist og heimamenn þannig skyndilega komnir í níu stiga forystu, 56:47. Á meðan tók það Stjörnumenn tæpar fimm mínútur að skora sín fyrstu stig í síðari hálfleik.

Eftir þessa hræðilegu byrjun á síðari hálfleiknum tóku Stjörnumenn vel við sér og náðu að jafna metin í 61:61 þegar skammt var eftir af þriðja leikhluta.

Þórsarar áttu þó síðasta orðið í leikhlutanum og staðan að honum loknum 65:61, heimamönnum í vil.

Þeir hófu fjórða leikhlutann af sama krafti og þann þriðja og settu niður þrjár þriggja stiga körfur á fyrstu tveimur mínútunum; Halldór Garðar Hermannsson, Davíð Arnar Ágústsson og Adomas Drungilas voru þar að verki.

Munurinn þar með skyndilega orðinn 13 stig, 74:61, og Stjörnumenn heillum horfnir. Þórsarar hertu enn frekar tökin og náðu mest 19 stiga forystu, 82:63.

Þórsarar unnu að lokum öruggan 18 stiga sigur, 92:74, og einvígið þar með 3:2 og mæta deildarmeisturum Keflavíkur í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins. Fyrsti leikurinn fer fram í Keflavík næstkomandi miðvikudag.

Í síðari hálfleik var sóknarleikur Þórsara mjög góður en það var þó fyrst og fremst magnaður varnarleikur liðsins í hálfleiknum sem skóp sigurinn, enda skoruðu Stjörnumenn aðeins 27 stig í honum.

Þar munaði ansi miklu um Litháann öfluga, Adomas Drungilas, sem lét lítið fyrir sér fara í sókninni að þessu sinni en tók hvorki meira né minna en 24 fráköst, þar af 18 varnarfráköst.

Þór Þorlákshöfn - Stjarnan 92:74

Icelandic Glacial-höllin, Dominos-deild karla, 12. júní 2021.

Gangur leiksins:: 2:6, 6:10, 11:17, 17:24, 26:35, 31:41, 41:47, 44:47, 51:47, 56:49, 61:56, 65:61, 76:63, 82:65, 84:70, 92:74.

Þór Þorlákshöfn: Larry Thomas 23/5 fráköst/5 stoðsendingar, Styrmir Snær Þrastarson 21/7 fráköst, Callum Reese Lawson 15/6 fráköst, Ragnar Örn Bragason 9, Halldór Garðar Hermannsson 8, Adomas Drungilas 7/24 fráköst, Emil Karel Einarsson 4, Davíð Arnar Ágústsson 3, Tómas Valur Þrastarson 2.

Fráköst: 33 í vörn, 13 í sókn.

Stjarnan: Ægir Þór Steinarsson 22/7 fráköst/5 stoðsendingar, Hlynur Elías Bæringsson 9/6 fráköst, Gunnar Ólafsson 9, Alexander Lindqvist 8/6 fráköst, Tómas Þórður Hilmarsson 8/5 fráköst, Dúi Þór Jónsson 8, Austin James Brodeur 6/4 fráköst, Arnþór Freyr Guðmundsson 4.

Fráköst: 20 í vörn, 11 í sókn.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Kristinn Óskarsson, Davíð Tómas Tómasson.

Áhorfendur: 300

Þór Þ. 92:74 Stjarnan opna loka
99. mín. skorar
mbl.is