Phoenix sópaði Denver úr keppni

Chris Paul átti frábæran leik fyrir Phoenix Suns í nótt.
Chris Paul átti frábæran leik fyrir Phoenix Suns í nótt. AFP

Phoenix Suns er komið í úrslit Vesturdeildar NBA í körfuknattleik eftir fjórða sigurinn í jafn mörgum leikjum í undanúrslitum deildarinnar gegn Denver Nuggets í nótt.

Phoenix var með undirtökin megnið af leiknum en Denver minnkaði þó muninn í aðeins fjögur stig, 101:97. Leiknum lauk með sjö stiga sigri Phoenix, 125:118.

Chris Paul og Devin Booker fóru báðir á kostum í liði Phoenix. Paul gerði 37 stig og gaf sjö stoðsendingar og Booker var með tvöfalda tvennu þar sem hann skoraði 34 stig og tók 11 fráköst að auki.

Will Barton var stigahæstur Denver-manna með 25 stig og þar á eftir kom Serbinn Nikola Jokic, besti leikmaður NBA-deildarinnar á tímabilinu, en hann var með tvöfalda tvennu er hann skoraði 22 stig og tók 11 fráköst.

Jokic var rekinn af velli þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir af þriðja leikhluta þegar hann sló boltann úr höndum Cameron Payne en á sama tíma fór höndin á honum í andlit Payne.

Fékk Jokic því dæmda á sig annars stigs ásetningsvillu, sem hann og Michael Malone, þjálfari Denver, skildu lítið í.

Villuna má sjá hér:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert