Brooklyn án Hardens og Irvings í fimmta leik

James Harden (t.v.) og Kyrie Irving (t.h.) verða báðir fjarri …
James Harden (t.v.) og Kyrie Irving (t.h.) verða báðir fjarri góðu gamni í nótt. AFP

James Harden og Kyrie Irving, bakverðir NBA-liðsins Brooklyn Nets, munu ekki geta tekið þátt í fimmta leik liðsins gegn Milwaukee Bucks í undanúrslitum vesturdeildarinnar.

Báðir glíma þeir við meiðsli og geta því ekki tekið þátt í leiknum mikilvæga í nótt, en staðan að loknum fjórum leikjum í einvígi liðanna er 2:2.

Harden meiddist aftan á læri í fyrsta leik liðanna og Irving meiddist á ökkla í fjórða leiknum aðfaranótt mánudags.

Mikið verður því lagt á herðar Kevin Durant, sem er skærasta stjarna liðsins ásamt tvímenningunum.

„Ég sé fyrir mér að þurfa að gera allt sjálfur ... bara eins og ég geri alltaf,“ sagði Durant kokhraustur á blaðamannafundi í dag.

Þrátt fyrir fjarveru lykilmannanna tveggja er margt góðra leikmanna í röðum Brooklyn, til dæmis Blake Griffin og Joe Harris, og því þarf Durant væntanlega ekki að gera allt sjálfur, en vitanlega er um mikinn missi að ræða fyrir meistaraefnin.

mbl.is