Brooklyn án Hardens og Irvings í fimmta leik

James Harden (t.v.) og Kyrie Irving (t.h.) verða báðir fjarri …
James Harden (t.v.) og Kyrie Irving (t.h.) verða báðir fjarri góðu gamni í nótt. AFP

James Harden og Kyrie Irving, bakverðir NBA-liðsins Brooklyn Nets, munu ekki geta tekið þátt í fimmta leik liðsins gegn Milwaukee Bucks í undanúrslitum vesturdeildarinnar.

Báðir glíma þeir við meiðsli og geta því ekki tekið þátt í leiknum mikilvæga í nótt, en staðan að loknum fjórum leikjum í einvígi liðanna er 2:2.

Harden meiddist aftan á læri í fyrsta leik liðanna og Irving meiddist á ökkla í fjórða leiknum aðfaranótt mánudags.

Mikið verður því lagt á herðar Kevin Durant, sem er skærasta stjarna liðsins ásamt tvímenningunum.

„Ég sé fyrir mér að þurfa að gera allt sjálfur ... bara eins og ég geri alltaf,“ sagði Durant kokhraustur á blaðamannafundi í dag.

Þrátt fyrir fjarveru lykilmannanna tveggja er margt góðra leikmanna í röðum Brooklyn, til dæmis Blake Griffin og Joe Harris, og því þarf Durant væntanlega ekki að gera allt sjálfur, en vitanlega er um mikinn missi að ræða fyrir meistaraefnin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert