Clippers og Atlanta jöfnuðu einvígi sín

Donovan Mitchell og Paul George fóru fyrir liðum sínum í …
Donovan Mitchell og Paul George fóru fyrir liðum sínum í nótt. AFP

LA Clippers og Atlanta Hawks eru bæði búin að jafna einvígi sín í undanúrslitum vestur- og austurdeildanna í NBA í körfuknattleik með sigrum í nótt.

Clippers hafði lent 0:2 undir í einvígi sínu við Utah Jazz í vesturdeildinni en tveir sigrar í röð á heimavelli í Los Angeles þýða að staðan er nú 2:2.

Líkt og í leikjunum á undan hafa stórstjörnur liðanna leitt þau í stigaskorun. Þannig skoruðu bæði Kawhi Leonard og Paul George 31 stig fyrir Clippers í nótt, á meðan Donovan Mitchell var stigahæstur í leiknum með 37 stig fyrir Utah.

Clippers unnu að lokum góðan 118:104 sigur.

Í einvígi Atlanta gegn Philadelphia 76ers vann Atlanta fyrsta leikinn áður en Philadelphia vann tvo í röð. Í nótt náði Atlanta svo sínum öðrum sigri og jafnaði einvígi liðanna í austurdeildinni í 2:2.

Trae Young og Serbinn Bogdan Bogdanovic reyndust Atlanta drjúgir í naumum 103:100 sigri í nótt. Young var með tvöfalda tvennu þar sem hann skoraði 25 stig og gaf 18 stoðsendingar. Bogdanovic skoraði þá 22 stig.

Kamerúninn Joel Embiid náði einnig tvöfaldri tvennu fyrir Philadelphia en skoraði minna en oft áður. Var hann með 17 stig og 21 frákast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert