Njarðvík tekur sæti Snæfells – aldrei fleiri lið í 1. deild

Njarðvík varð deildarmeistari í 1. deild kvenna á tímabilinu, tapaði …
Njarðvík varð deildarmeistari í 1. deild kvenna á tímabilinu, tapaði úrslitaeinvíginu gegn Grindavík en var boðið laust sæti í úrvalsdeild, sem liðið þáði. Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson

Njarðvík mun taka sæti Snæfells í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik á næsta tímabili. Snæfell var búið að ákveða að senda ekki lið sitt til keppni í deildinni og Njarðvík hefur þekkst boðið um að taka sætið.

„Það get ég staðfest, það er hárrétt,“ sagði Hannes S. Jónsson, formaður Körfuknattleikssambands Íslands, KKÍ, í samtali við mbl.is.

„Snæfell sendir ekki lið til keppni í deildinni á næsta tímabili. Liðinu sem féll, KR, var boðið sætið. Þau höfnuðu því og þá er það næsta í stöðunni að bjóða liðinu sem tapaði þessari frábæru úrslitaseríu sem var í fyrstu deild kvenna. Þetta var geggjuð sería og sýnir hversu sterk fyrsta deildin er orðin,“ bætti Hannes við.

Grindavík vann þá Njarðvík 3:2 og tryggði sér sæti í úrvalsdeildinni eftir að hafa lent 0:2 undir í einvígi Suðurnesjaliðanna.

„Grindvíkingar fóru upp og Njarðvíkingar tilkynntu það síðan strax daginn eftir að þeir myndu taka sætið í úrvalsdeildinni. Úrvalsdeildin er þá mönnuð með því að Njarðvík tók sætið,“ útskýrði hann.

Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, hér við hlið Guðna Th. …
Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, hér við hlið Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands. mbl.is/Hari

Snæfell tekur sæti í fyrstu deildinni í staðinn. Hannes benti á að þrátt fyrir þessar ákvarðanir Snæfells og KR væri íslenskur kvennakörfubolti í mikilli sókn.

„Í rauninni er margt gleðiefni því það er ofboðslega margt gott að gerast í kvennaboltanum hjá okkur, bæði í yngri flokkum og neðri deildum meistaraflokka. Til dæmis hefur fyrsta deild kvenna aldrei verið með jafn mörgum liðum og núna.

Það eru átta lið í úrvalsdeildinni og svo verða 12 í fyrstu deild á næsta tímabili. Hún hefur aldrei verið svona fjölmenn og við höfum sömuleiðis ekki haft jafn fjölmenna yngri flokka stúlkna eins og verið er að skrá hjá okkur núna. Þannig að það er margt mjög gott kvennamegin þrátt fyrir þetta,“ sagði hann að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert