Fáránlegt að spá einhverju öðru en sigri Keflavíkur

Darri Freyr Atlason á hliðarlínunni með KR.
Darri Freyr Atlason á hliðarlínunni með KR. mbl.is/Kristinn Magnússon

Úrslitaeinvígi Keflavíkur og Þórs frá Þorlákshöfn á Íslandsmóti karla í körfubolta hefst í kvöld í Keflavík klukkan 20:15.

Flestir spá Keflvíkingum sigri þar sem liðið varð deildarmeistari með sannfærandi hætti og hefur unnið alla sex leiki sína í úrslitakeppninni á meðan Þórsarar hafa spilað níu leiki í úrslitakeppninni. Það lið sem er á undan að vinna þrjá leiki verður Íslandsmeistari 2021. 

„Ef maður er að spá fyrir einvígið er fáránlegt að spá einhverju öðru en sigri Keflavíkur. Þeir hafa ekki tapað á heimavelli í 500 og eitthvað daga og búnir að vera langbesta liðið. Ég held samt að Þórsararnir eiga fulla möguleika á að gera þetta að seríu,“ sagði Darri Freyr Atlason, þjálfari KR, í samtali við mbl.is um seríuna. 

Hörður Axel Vilhjálmsson er lykilmaður hjá Keflavík.
Hörður Axel Vilhjálmsson er lykilmaður hjá Keflavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann er óviss hvort leikjaálagið skipti máli þegar í úrslitaeinvígið er komið. „Það er erfitt að segja til um það. Það er búið að spila á þessu tempói sem Þórsararnir eru á og það gæti reynst þeim vel. Það kemur í ljós í fyrsta leiknum hvort það skipti máli.“

Gera sitt ótrúlega vel

Darri þekkir lið Keflavíkur vel þar sem hann og lærisveinar hans urðu að sætta sig við 0:3-tap fyrir liðinu í undanúrslitum. KR-ingar stóðu í Keflavík allt einvígið, en ávallt sigldi Keflavík sigri í höfn. 

„Þeir gera bara sitt og gera það ótrúlega vel. Það vita allir hvað Keflavík er að fara að gera. Maður reynir að gera það sem að í manns valdi stendur til að stöðva það en oftast gengur það illa, allavega á þessu tímabili. Hössi [Hörður Axel Vilhjálmsson] er hausinn í þessu og stýrir þessu en svo eru bestu leikmennirnir í Keflavík betri en hjá öðrum liðum í deildinni og það er það sem mér finnst skilja á milli.“

Larry Thomas er góð þriggja stiga skytta.
Larry Thomas er góð þriggja stiga skytta. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fráköst og þriggja stiga skot

Þrátt fyrir að Keflavík sé með gríðarlega sterkt lið segir Darri Þórsara eiga möguleika. „Þetta snýst að mörgu leyti um að þeir nái að frákasta boltanum og svo búa til skotfæri þar sem þeir eru með góða þriggja stiga nýtingu. Ef þeir skjóta vel fyrir utan þriggja stiga línuna og frákasta, geta þeir alveg unnið Keflavík,“ sagði hann. 

Aðspurður hvort hann fái einhvern tímann frí frá körfubolta sagði hann svo sannarlega vera að njóta þess að fá slíkt eftir mjög langt og strangt tímabil. „Nú fær maður bara frí og það er öllum best að slaka á í smá tíma eftir þetta langa og stranga tímabil, en svo verða allir tilbúnir í að taka upp þráðinn," sagði Darri Freyr. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert