Ótrúlegur Durant í endurkomusigri

Kevin Durant var óstöðvandi í nótt.
Kevin Durant var óstöðvandi í nótt. AFP

Brooklyn Nets er komið í 3:2-forystu í einvígi sínu gegn Milwaukee Bucks í undanúrslitum Austurdeildar NBA-körfuboltans í Bandaríkjunum eftir 114:108-sigur í æsispennandi leik í nótt. 

Milwaukee byrjaði mikið betur og var með 14 stiga forskot eftir fyrsta leikhlutann, 29:15. Milwaukee var áfram með frumkvæðið í öðrum leikhluta og var staðan í hálfleik 59:43. 

Kevin Durant hjá Brooklyn ætlaði sér hinsvegar ekki að lenda undir í einvíginu og stórkostleg frammistaða hans var stærsta ástæða þess að Brooklyn minnkaði muninn í þriðja leikhluta, en staðan eftir hann var 87:81. Brooklyn hélt áfram í fjórða leikhlutanum, jafnaði og komst loks yfir. 

Eftir æsispennandi lokamínútur voru það svo heimamenn í Brooklyn sem fögnuðu sigri en allir fimm leikir liðanna til þessa hafa unnist á heimavelli. 

Durant átti ótrúlegan leik og skoraði 49 stig, tók 17 fráköst, gaf 10 stoðsendingar, stal þremur boltum og varði tvö skot. Jeff Green skoraði 27 stig. Giannis Antetokounmpo skoraði 34 stig fyrir Milwaukee og tók 12 fráköst. 

Kyrie Irving lék ekki með Brooklyn í nótt og James Harden gat lítið beitt sér vegna meiðsla og skoraði aðeins fimm stig.

Sjötti leikurinn fer fram í Milwaukee aðfaranótt laugardags og getur Brooklyn með sigri farið í úrslitaeinvígi Austurdeildarinnar þar sem Philadelphia 76ers eða Atlanta Hawks bíður. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert