Clippers og Atlanta þurfa einn sigur til viðbótar

Paul George lét vel að sér kveða í fjarveru Kawhi …
Paul George lét vel að sér kveða í fjarveru Kawhi Leonard í nótt. AFP

LA Clippers og Atlanta Hawks eru bæði komin í 3:2 forystu í einvígjum sínum í undanúrslitum Vestur- og Austurdeilda NBA í körfuknattleik eftir sigra í nótt.

Clippers er búið að snúa einvígi sínu við Utah Jazz í undanúrslitum Vesturdeildarinnar við eftir að hafa lent 0:2 undir. Liðið lék án Kawhi Leonard, sem er meiddur á hné, í nótt en þá steig Paul George svo sannarlega upp og átti stórleik þar sem hann náði tvöfaldri tvennu.

Skoraði hann 37 stig og tók 16 fráköst í 119:111 sigri.

Serbinn Bojan Bogdanovic var stigahæstur Utah-manna með 32 stig.

Atlanta vann svo nauman 109:106 sigur gegn Philadelphia 76ers í undanúrslitum Austurdeildinni, þar sem Trae Young hélt áfram að fara á kostum.

Hann skoraði 39 stig og gaf sjö stoðsendingar auki.

Í liði Philadelphia átti Kamerúninn Joel Embiid einnig stórleik og var með tvöfalda tvennu. Skoraði hann 37 stig og tók 13 fráköst. Samherji hans, Seth Curry, yngri bróðir Steph, spilaði sömuleiðis frábærlega og skoraði 36 stig, auk þess sem hann tók sjö fráköst.

Fjóra leiki þarf til að tryggja sér sigur í einvígjunum.

Sjötti leikur beggja einvígja fer fram aðfaranótt næstkomandi laugardags, þar sem Clippers og Atlanta geta tryggt sér sigra í einvíginu og að sama skapi geta Utah og Philadelphia knúið fram oddaleik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert