Milwaukee tryggði sér oddaleik

Kevin Durant og Giannis Antetokounmpo fóru sem fyrr fyrir liðum …
Kevin Durant og Giannis Antetokounmpo fóru sem fyrr fyrir liðum sínum og eigast hér við í sjötta leik einvígisins í nótt. AFP

Milwaukee Bucks jafnaði í nótt einvígi sitt við Brooklyn Nets í undanúrslitum Austurdeildar NBA í körfuknattleik í 3:3 og tryggði sér þar með oddaleik.

Khris Middleton og Giannis Antetokounmpo fóru báðir á kostum í liði Milwaukee og voru með tvöfalda tvennu á meðan James Hardens og Kyrie Irvings var sárt saknað í herbúðum Brooklyn.

Middleton skoraði 38 stig og tók 10 fráköst að auki og Giannis var með 30 stig og tók 17 fráköst.

Mikið mæddi á Kevin Durant í liði Brooklyn og náði hann sömuleiðis tvöfaldri tvennu er hann skoraði 32 stig og tók 11 fráköst en það dugði ekki til í nótt.

Milwaukee vann að lokum nokkuð þægilegan 104:89 sigur og mætast liðin því í sjöunda leik, oddaleik, aðfaranótt sunnudags til þess að skera úr um sigurvegara einvígisins.

mbl.is