Ætlum að mæta til Keflavíkur og taka þann stóra

Styrmir Snær Þrastarson var drjúgur í kvöld.
Styrmir Snær Þrastarson var drjúgur í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Ég lenti undir körfunni og fékk spark frá Milka í hausinn. Það var algjörlega óvart en ég fékk blóðnasir,“ sagði hinn 19 ára gamli Styrmir Snær Þrastarson í samtali við mbl.is. Styrmir spilaði stórt hlutverk er Þór Þorlákshöfn komst í 2:0 í einvígi sínu gegn Keflavík í úrslitum Íslandsmótsins í körfubolta með 88:83-sigri. 

Þór var með tíu stiga forskot í hálfleik, en Keflavík tókst að komast yfir í fjórða leikhluta. Þórsarar voru hins vegar sterkari í blálokin. 

„Við vorum mjög góðir í fyrri hálfleik en ekki eins vel stemmdir í byrjun seinni. Við sýnum hins vegar styrk og klárum þetta í lokin. Við gerðum það bæði með liðsbolta og svo einstaklingsframtaki. Drungilas var frábær í fjórða leikhluta, eins og Larry í fyrri hálfleik. Þetta er geggjuð liðsheild,“ sagði landsliðsmaðurinn. 

Þriðji leikur liðanna fer fram á þriðjudaginn kemur og Þór verður Íslandsmeistari í fyrsta skipti með sigri. 

„Við þurfum að klára einn leik í viðbót og þetta verkefni er ekki búið. Við verðum að halda ró okkar því við ætlum að mæta til Keflavíkur og taka þann stóra. Auðvitað er bæjarfélagið mjög hátt uppi og í svona litlum bæjarfélögum myndast gríðarlega mikil stemning.“

Það blæddi vel úr Styrmi eftir áreksturinn sem hann ræðir um í upphafi þessarar greinar, en þrátt fyrir það hélt hann leik áfram og skoraði mikilvæg stig á vítalínunni þegar mikið var undir. Hann segir hjartað ekki slá hraðar þótt hann sé að taka mikilvæg víti í úrslitum Íslandsmótsins. 

„Nei ekki neitt. Ég er með einbeitingarrútínu á vítalínunni. Ég dripla þrisvar og svo set ég boltann ofan í,“ sagði Styrmir pollrólegur. 

mbl.is