Helena heim í heiðardalinn

Helena Sverrisdóttir er komin aftur til Hauka.
Helena Sverrisdóttir er komin aftur til Hauka. Haraldur Jónasson/Hari

Körfuknattleiksdeild Hauka og Helena Sverrisdóttir hafa komist að samkomulagi um að Helena spili með Haukum næstu tvö tímabil. Helena, sem er að öðrum ólöstuðum besta körfuknattleikskona Íslandssögunnar, snýr þar með aftur til uppeldisfélagsins.

Helena varð Íslandsmeistari með Val á nýafstöðnu tímabili og spilaði með liðinu frá því í nóvember árið 2018 eftir að hafa flutt aftur heim til Íslands í kjölfar dvalar í atvinnumennsku.

„Helenu þarf varla að kynna fyrir Haukamönnum en hún hefur unnið allt sem hægt er að vinna með félaginu og í raun hvergi annars staðar spilað hér á landi fyrir utan tímann sem hún var í Val.

Helena fór frá því að spila upp alla yngri flokka Hauka til TCU í Bandaríkjunum og flakkaði svo um Evrópu sem atvinnumaður þangað til hún kom aftur til Hauka. Aftur hélt Helena út og um mitt tímabil 2018-2019 sneri hún heim og gekk þá til liðs við Val,“ segir í tilkynningu frá Haukum.

Þar segir einnig að hún hafi skilað flottum tölum á síðasta tímabili þrátt fyrir að hafa verið í barneignaleyfi stóran hluta þess. Endaði Helena með 13,5 stig, 9,6 fráköst og 4,8 stoðsendingar að meðaltali í 24 leikjum á tímabilinu.

„Ég er ótrúlega spennt að vera komin aftur heim. Það er frábær umgjörð og gott fólk í kringum klúbbinn og ég hlakka til að vera komin inn í Haukafjölskylduna aftur,“ sagði Helena við þetta tilefni.

mbl.is