Philadelphia knúði fram oddaleik

Seth Curry og Trae Young voru stigahæstir í liðum sínum …
Seth Curry og Trae Young voru stigahæstir í liðum sínum í nótt. AFP

Philadelphia 76ers jafnaði í nótt einvígi sitt við Atlanta Hawks í undanúrslitum Austurdeildar NBA í körfuknattleik með naumum 104:99 sigri í sjötta leik liðanna.

Einvígið hefur verið æsispennandi og vann Atlanta til að mynda fimmta leikinn í vikunni sömuleiðis naumlega.

Í leiknum í nótt var allt í járnum allt til enda. Trae Young fór sem fyrr fyrir Atlanta og náði tvöfaldri tvennu er hann skoraði 34 stig og gaf 12 stoðsendingar að auki.

Stigaskorun dreifðist betur á milli leikmanna hjá Philadelphia þar sem Seth Curry og Tobias Harris gerðu báðir 22 stig, á meðan Kamerúninn sterki Joel Embiid var með tvöfalda tvennu; skoraði 22 stig og tók 13 fráköst.

Eftir sigur Philadelphia í nótt er staðan í einvíginu jöfn, 3:3, og munu úrslitin ráðast aðfaranótt mánudags um það hvort liðið fari í úrslitaleik Austurdeildarinnar.

Í hinum undanúrslitaleik Austurdeildarinnar milli Brooklyn Nets og Milwaukee Bucks er staðan einnig 3:3 og fer oddaleikurinn í þeirri rimmu fram aðfaranótt sunnudags.

mbl.is