Sögufrægasti sigur Clippers – lítt notaður varamaður hetjan

Paul George faðmar hetjuna Terance Mann í leik LA Clippers …
Paul George faðmar hetjuna Terance Mann í leik LA Clippers og Utah Jazz í nótt en Mann skoraði 39 stig í leiknum. AFP

Maður hélt að maður hefði séð það allt hér í Staples Center, eftir að hafa fylgst með sigurgöngu Los Angeles Lakers í gegnum árin í höllinni.

En Clippers?

Það eina sem kom í höfuð mitt eftir að LA Clippers unnu Utah Jazz í sjötta leik liðanna í undanúrslitarimmu Vesturdeildar NBA í nótt, 131:119, og einvígið þar með 4:2, var, „NBA-boltinn, bloody hell,“ svo vitnað sé í frægan skoskan knattspyrnustjóra.  

Ár eftir ár, jafnvel eftir að nýr eigandi tók við liðinu og hagur liðsins fór loks að batna eftir þrjátíu ára endalausa tapgöngu, hélt liðið þó áfram að valda vonbrigðum í úrslitakeppninni – hverjar svo sem stjörnurnar voru eða þjálfarar.

Svo virtist sem að sama yrði á í leik þessara liða eftir að Utah hafði yfirburði í fyrri hálfleiknum og juku svo forystuna í 25 stig snemma í seinni hálfleiknum. 

Ekkert virtist ganga upp hjá liðinu og maður farinn að sjá fram á nöldur og baul heimaáhorfenda í seinni hálfleiknum. 

Manni fer í gang

Það var þá sem Terance Mann, sjaldan notaður leikmaður af varamannabekk Clippers eftir að liðið valdi hann í háskólavalinu fyrir tveimur árum, fór heldur betur í gang. Hann var í byrjunarliðinu eftir meiðsl Kawhi Leonard fyrir skemmstu, og byrjaði að skora hverja körfuna af annarri á fjölbreyttan hátt. Þriggja stiga skot, barningur við miðherjann Rudy Gobert undir körfunni, hraðaupphlaup. Allt byrjaði að leka niður fyrir hann. 

Ekki bara smám saman, heldur áður en að nokkur gat áttað sig á í höllinni höfðu heimamenn næstum jafnað leikinn. Þegar lokaleikhlutinn hófst var þessi leikur allt í einu í járnum og það var virkilega gaman að finna fyrir andrúmsloftinu í uppseldu Staples Center. Hlutur sem maður hafði ekki upplifað í fimmtán mánuði. Svona gleði hafði stuðningsfólk Clippers ekki upplifað áður í sögu hálfrar aldar sögu klúbbsins.  

Vítamínsprauta Mann virtist virka fyrir allt liðið því eftir að Utah náði stærstu forystu sinni í upphafi seinni hálfleiksins, skoruðu Clippers 40 af næstu 52 stigum leiksins og náðu tíu stiga forystu þegar fimm mínútur voru eftir. „Ég lék bara minn venjulega leik. Treysti skotinu, því ég treysti því sem ég legg í æfingar,“ sagði Mann í leikslok.

Efsta lið Vesturdeildarinnar í ár virtist alveg dasað eftir þennan kafla hjá Mann og Clippers, og þrátt fyrir að Donovan Mitchell reyndi sitt besta til að koma Jazz aftur í leikinn, voru heimamenn ekki á því í þetta sinn að klúðra dæminu. Sigur Clippers endaði 131:119 og þar með vann Clippers einvígi liðanna 4:2 og er Clippers þar með komið í lokarimmu Vesturdeildarinnar gegn Phoenix Suns. 

Clippers skoraði 14 þriggja stiga körfur í seinni hálfleiknum og alls 81 stig í einum sögulegasta leik deildarinnar.

Mann leiddi Clippers í stigaskoruninni með 39 stig, Paul George setti 20 og Reggie Jackson var einnig atorkumikill í seinni hálfleiknum með 27 alls.

Með sigrinum er Clippers því í fyrsta sinn komið í lokarimmu Vestudeildar, en margoft áður hefur liðið verið nálægt því, en alltaf einhvern veginn klúðrað því. 

Terance Mann og Ivica Zubac faðmast eftir hinn magnaða sigur …
Terance Mann og Ivica Zubac faðmast eftir hinn magnaða sigur Clippers. AFP

Ekki uppgjöf í þetta sinn

Tvívegis í þessari úrslitakeppni hefur Clippers lent 2:0 undir í byrjun – gegn Dallas og nú Utah – en í bæði skiptin náði liðið að grafa sig úr þeirri holu og ná sigri í rimmunni.

Allt án stórstjörnunnar Kawhi Leonard, sem er enn meiddur á hné og mun að öllum líkindum ekki leika meira á þessu keppnistímabili.

Þetta var slæmt tap fyrir Utah, sem byrjaði þennan leik mjög vel. Liðið hafði bestan árangur allra liða í deildarkeppninni og með mjög traustar þriggja stiga skyttur. Donovan Mitchell var frábær fyrir liðið með 39 stig. Ekkert af því dugði í lokin gegn Clippers og er því Jazz-liðið enn á ný eitt stórt spurningarmerki. 

Með sigrinum getur Clippers nú ferðast í bökunarofninn í Phoenix í baráttu við Suns um meistaratitilinn í Vesturdeildinni á morgun. Þar var 47 stiga hiti í vikunni, en mun sjálfsagt kólna í 42 stig á morgun. 

Hvað sem gerist nú hjá Clippers var þessi sigur í kvöld sá sögufrægasti hjá liðinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert