Þór einum sigri frá fyrsta Íslandsmeistaratitlinum

Callum Lawson og Deane Williams í fyrsta leik liðanna á …
Callum Lawson og Deane Williams í fyrsta leik liðanna á miðvikudagskvöld. Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson

Þór frá Þorlákshöfn er einum sigri frá fyrsta Íslandsmeistaratitli félagsins eftir 88:83-heimasigur á Keflavík í öðrum leik liðanna í úrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta í Þorlákshöfn í kvöld. Staðan er nú 2:0, Þór í vil. 

Heimamenn í Þór voru sterkari í fyrri hálfleik og með góðum leik hjá Adomas Drungilas munaði fimm stigum á liðunum eftir fyrsta leikhlutann, 27:22. Þórsarar byrjuðu gríðarlega vel í öðrum leikhluta og náðu mest 17 stiga forskoti. Larry Thomas hrökk í gang fyrir utan þriggja stiga línuna og skoraði hverja glæsikörfuna á fætur annarri.

Keflvíkingar neituðu að gefast upp og með bættum varnarleik tókst þeim að minnka muninn í tíu stig fyrir hálfleik, 47:37.

Keflavík byrjaði þriðja leikhlutann betur og með góðu áhlaupi minnkuðu gestirnir muninn í eitt stig, 62:61 þegar tvær mínútur voru eftir af leikhlutanum. Keflavík jafnaði í kjölfarið í 64:64, en tókst ekki að komast yfir. Þegar þriðji leikhluti var allur hafði Þór aftur komist yfir, 68:67, sem var staðan fyrir lokaleikhlutann.

Reggie Dupree skoraði þriggja stiga körfu í upphafi fjórða leikhluta og kom Keflavík yfir í fyrsta skipti síðan snemma leiks, 70:68. Þórsarar svöruðu með fínu áhlaupi og sem breytti stöðunni í 74:70, þeim í vil og var staðan orðin 77:72 skömmu síðar. 

Þrátt fyrir fínar tilraunir tókst Keflavík ekki að jafna eftir það og Þórsarar fögnuðu dísætum sigri. Adomas Drungilas skoraði mest fyrir Þór eða 29 stig og Calvin Burks gerði 27 stig fyrir Keflavík.

Þriðji leikurinn fer fram á þriðjudagkvöldið í Keflavík.

Þór Þorlákshöfn - Keflavík 88:83

Icelandic Glacial höllin, Dominos deild karla, 19. júní 2021.

Gangur leiksins:: 8:7, 18:10, 22:17, 27:22, 38:26, 41:26, 44:30, 47:37, 49:41, 57:51, 62:58, 68:67, 71:70, 79:74, 82:76, 88:83.

Þór Þorlákshöfn: Adomas Drungilas 29/7 fráköst, Larry Thomas 20/9 fráköst/5 stoðsendingar, Callum Reese Lawson 14/5 fráköst, Styrmir Snær Þrastarson 14/6 fráköst/5 stoðsendingar, Halldór Garðar Hermannsson 4, Ragnar Örn Bragason 4/5 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 3.

Fráköst: 26 í vörn, 9 í sókn.

Keflavík: Calvin Burks Jr. 27/7 fráköst/5 stoðsendingar, Dominykas Milka 19/9 fráköst/5 stoðsendingar, Deane Williams 13/10 fráköst, Hörður Axel Vilhjálmsson 10/4 fráköst/5 stoðsendingar, Reggie Dupree 8, Valur Orri Valsson 5, Ágúst Orrason 1.

Fráköst: 22 í vörn, 11 í sókn.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Jóhannes Páll Friðriksson, Davíð Kristján Hreiðarsson.

Áhorfendur: 540

Þór Þ. 88:82 Keflavík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is