Úrslitaeinvígið fer í oddaleik

Callum Lawson sækir að Deane Williams í fyrsta leik liðanna …
Callum Lawson sækir að Deane Williams í fyrsta leik liðanna á miðvikudagskvöld. Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson

Logi Gunnarsson, leikmaður Njarðvíkur og fyrrverandi atvinnumaður og landsliðsmaður í körfuknattleik, segist eiga erfitt með að spá fyrir um sigurvegara í úrslitaeinvígi Keflavíkur og Þórs frá Þorlákshöfn á Íslandsmóti karla en telur þó að það muni enda í fimm leikjum.

Þór vann fyrsta leikinn örugglega í Keflavík, 91:73. Í samtali við mbl.is var hann spurður að því hvernig hann teldi að annar leikur liðanna í einvíginu, í Þorlákshöfn í kvöld, myndi fara.

„Ég veit það ekki alveg. Ég held að þeir verði alla vega mikið betri en á miðvikudaginn og mögulega jafna þeir seríuna í kvöld því þeir hafa ekki tapað tveimur leikjum í röð í tvö tímabil í röð að ég held. Á þessu tímabili hafa þeir ekki tapað tveimur í röð.

Ég held að það séu meiri líkur á því að þeir jafni seríuna en Þórsararnir eru samt komnir með bragðið. Ég veit að þeir ætla sér að komast í 2:0. Ef þeir spila sinn leik og ná einhvern veginn að framkvæma þennan varnarleik aftur þá vinna þeir. Ég held að þetta verði mun jafnari leikur en á miðvikudaginn.

Keflvíkingar mæta bara í leikinn í kvöld og spila ábyggilega eins og þeir hafa verið að gera í allan vetur. Þeir ætla ekki að láta þetta gerast tvisvar í röð. Næsti leikur er rosalega mikilvægur og ég myndi halda að Keflvíkingarnir komi öðruvísi til leiks heldur en þeir gerðu á miðvikudaginn á heimavelli,“ sagði hann.

Logi treysti sér ekki til þess að spá fyrir um hvort liðið myndi standa uppi sem Íslandsmeistari en sagði þó: „Ef ég þyrfti að segja eitthvað þá held ég að þessi sería fari í fimm leiki, en ég þori ekki að segja meira.“

Yrðu vonbrigði fyrir Keflavík

Hann sagðist hafa orðið þess áskynja að áhorfendum á Íslandi þætti líklegast að Keflavík myndi sópa einvíginu, vinna það 3:0, en Þór var ekki alveg á því.

„Miðað við hvernig mótið hefur spilast þá bjuggust allir við og búast við því enn þá að Keflavík vinni þessa seríu en mér finnst sem Þórsarar hafi komið með smá yfirlýsingu á miðvikudaginn og hreyfðu aðeins við Keflvíkingum. Ég veit að það eru margir sem halda að þeir hefðu bara átt að fara í gegnum þetta 3:0,“ sagði Logi.

Logi Gunnarsson spáir í úrslitaeinvígið.
Logi Gunnarsson spáir í úrslitaeinvígið. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Með yfirburði deildarmeistara Keflavíkur í vetur í huga sagði hann að Keflvíkingar mættu ekki til þess hugsa að standa ekki uppi sem Íslandsmeistarar.

„Það væri mjög slæmt fyrir Keflvíkinga ef þeir myndu tapa næsta leik líka. Þetta er stór og mikill leikur, næsti leikur. Ef Keflavík verður ekki Íslandsmeistari þá yrðu það rosaleg vonbrigði fyrir félagið því þeir eru búnir að vera besta liðið síðustu tvö ár þorir maður að segja. Þessi leikur á miðvikudaginn setti þetta í smá uppnám,“ sagði Logi og bætti við að lokum:

„Nú er spurning hvernig menn höndla það þegar þeir lenda í svona. Það verður áhugavert að sjá hvernig Keflvíkingar höndla það í kvöld.“

mbl.is