Bandarískur bakvörður í Þór

Frá leik Þórs frá Akureyri gegn Þór frá Þorlákshöfn.
Frá leik Þórs frá Akureyri gegn Þór frá Þorlákshöfn. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Körfuknattleiksdeild Þórs frá Akureyri hefur gert samning við bandaríska bakvörðinn Jonathan Lawton og mun hann leika með liðinu á næsta tímabili. 

Þórsarar enduðu í sjöunda sæti úrvalsdeildarinnar á nýliðinni leiktíð og töpuðu fyrir nöfnum sínum frá Þorlákshöfn í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar. 

Tilkynning Þórsara: 

Lawton sem er 25 ára kemur frá Williamstown í New Jersey. Hann spilaði síðast í írsku úrvalsdeildinni en þar leiddi hann lið Tralee til deildarmeistaratitils áður en deildarkeppninni var hætt. 

Þar áður spilaði Lawton fyrir Florida Southern College í NCAA2 í deild háskólaboltans í svokallaðri Sunshine State Conference. Nokkrir leikmenn sem spilað hér á landi hafa einmitt spilað í sömu deild, þar á meðal Elvar Már Friðriksson, Valur Orri Valsson, Jamal Palmar og Kevin Capers. 

Lawton var á lokaári sínu með 22,5 stig, 3,6 stoðsendingar og 3,5 fráköst að meðaltali í leik. Það skilaði honum því að vera valinn mikilvægasti leikmaður (MVP) Sunshine State Conference.

Við Þórsarar bindum miklar vonir við kappann og hlökkum til að sjá hann á fjölum Íþróttahallarinnar von bráðar.

mbl.is