Keflvíkingar ætla sér meira í ár

Dominykas Milka sækir að Þórsurum í Keflavík.
Dominykas Milka sækir að Þórsurum í Keflavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Keflvíkingar mættu fullir alvöru um að forða sér frá sumarfríi í kvöld þegar þeir tóku á móti Þór Þorlákshöfn í þriðja leik liðanna í úrslitaeinvígi Íslandsmóts karla í körfuknattleik í Blue-höllinni í Keflavík. Með sigri hefðu Þórsarar hampað þeim stóra en slíkt var ekki á teikniborði Keflvíkinga. 97:83 varð niðurstaða kvöldsins og lokatölur gefa svo sem hárrétta mynd af kvöldinu. Gestirnir úr Þorlákshöfn áttu aldrei möguleika þrátt fyrir fína baráttu. 

Ákefðin í andlitum Keflvíkinga allt frá fyrstu mínútu skein í gegn hjá hverjum leikmanni. Þegar á leið og menn komu inn af bekknum breytti það engu. Einbeitning 100% og takmarkið að klára kvöldið með sigri.  Leiddir áfram að CJ Burks sóknarlega og skörtuðu svo vatnsþéttum varnarleik hinumegin á vellinum, keyrðu Keflvíkingar hreinlega yfir lánlausa Þórsara.  

Og kvöldið í raun speglast algerlega af frábærum varnarleik Keflvíkinga sem hingað til hafa aðeins verið skugginn af sjálfum sér.  Það er kannski klisja en þetta kvöldið bar pressan og/eða spennan Þórsara ofurliði.  Lykil leikmenn þeirra langt frá sínu besta og töluvert vantaði uppá til að ógna sigri Keflavíkur þetta kvöldið.  Þórsarar kannski eiga það eftir kvöldið að þeir gáfust aldrei upp en áttu, spiluðu fínan sóknarleik og héldu í við Keflvíkinga megnið af seinni hálfleik en voru ekki að ná að stoppa hinumegin á vellinum.   

Nú færist einvígið aftur yfir til Þorlákshafnar og fróðlegt verður að sjá hvernig Þórsarar taka á þessu mótbárum sem þeir fengu í fangið þetta kvöldið því þær geta auðveldlega haldið sjó og borist yfir í næsta leik.  Keflavík sem þrátt fyrir að hafa verið 2:0 undir í einvíginu virðast einhvernvegin enn hafa ákveðið forskot í einvíginu, eins fáránlega og það hljómar.  

Bæði lið leggjast nú yfir leik kvöldsins og fínstilla atriði í sínum leik.  Keflvíkingar kannski komnir á beinu brautina? Þurfa þeir nokkuð annað en að mæta af sama krafti í næsta leik? Eitt er þó nokkuð ljóst að ef Þórsarar ætli sér titil þurfa þeir að mæta til leiks af sömu ákefð og í fyrsta og öðrum leiknum og þá sérstaklega varnarlega, því eins og oft er sagt, sókn vinnur leiki en vörn vinnur titla. 

Keflavík - Þór Þorlákshöfn 97:83

Blue-höllin, Dominos deild karla, 22. júní 2021.

Gangur leiksins:: 6:0, 11:5, 18:13, 23:15, 30:18, 36:29, 45:33, 47:38, 51:41, 58:46, 62:51, 67:56, 74:60, 79:65, 87:75, 97:83.

Keflavík: Calvin Burks Jr. 26/6 fráköst, Dominykas Milka 25/7 fráköst, Deane Williams 13/9 fráköst, Hörður Axel Vilhjálmsson 11/9 stoðsendingar, Valur Orri Valsson 10/7 fráköst/6 stoðsendingar, Arnór Sveinsson 7, Reggie Dupree 5.

Fráköst: 26 í vörn, 8 í sókn.

Þór Þorlákshöfn: Larry Thomas 24/5 fráköst, Ragnar Örn Bragason 12, Halldór Garðar Hermannsson 12, Callum Reese Lawson 10/4 fráköst, Styrmir Snær Þrastarson 9/5 fráköst, Adomas Drungilas 8/6 fráköst/6 stoðsendingar, Emil Karel Einarsson 5, Tómas Valur Þrastarson 2, Benedikt Þorvaldur G. Hjarðar 1.

Fráköst: 19 í vörn, 3 í sókn.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Davíð Tómas Tómasson, Rögnvaldur Hreiðarsson.

Áhorfendur: 600

Keflavík 97:83 Þór Þ. opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert