„Viljum fá sem flesta á völlinn“

Barátta um frákast í leiknum í kvöld.
Barátta um frákast í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Emil Karel Einarsson, fyrirliði Þórs, þótti Þórsarar ekki vera eins áræðnir í þriðja úrslitaleiknum gegn Keflavík í kvöld í samanburði við fyrstu tvo leikina. 

Keflavík hafði betur 97:83 í Keflavík í kvöld og er staðan 2:1 fyr­ir Þór en vinna þarf þrjá leiki til að verða meist­ari. Liðin mætast í fjórða sinn í Þorlákshöfn á föstudagskvöldið.

„Við þurfum að koma til baka og sýna sömu áræðni og í fyrstu tveimur leikjunum. Mér fannst Keflvíkingar mæta tilbúnir til leiks. Auðvitað, því þeir eru berjast fyrir lífi sínu. Við voru ekki eins ákafir og þeir. Í sókninni vorum við svolítið staðir og reyndum of mikið sjálfir í stað þess að láta boltann ganga. Við sættum okkur of mikið við erfið skot þar sem flæðið var lítið og tókst ekki heldur að komast að körfunni. Þetta þurfum við að laga,“ sagði Emil þegar mbl.is spjallaði við hann í Keflavík. 

Emil Karel Einarsson.
Emil Karel Einarsson. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Tók biðin eftir þriðja leiknum á fyrir leikmenn Þórs sem þurfa aðeins einn sigur til viðbótar til að verða Íslandsmeistarar í fyrsta skipti í sögu félagsins?

„Nei nei. Við erum einbeittir og viljum klára dæmið en gerðum okkur grein fyrir því að þetta væri langt frá því að vera búið. Á föstudaginn þurfum við að vera vel tengdir og veita fyrsta höggið. Þeim tókst að gera það í kvöld og héldu forskotinu út leikinn. Okkur tókst ekki að komast almennilega inn í leikinn. Við fengum tækifæri til að ná forskotinu niður í sex stig en það tókst ekki. Á þeim kafla fengum við fín skotfæri en nýttum þau ekki. Fyrir vikið fengum við aldrei almennilegan meðbyr. Þessi skot þurfa að rata rétt leið í svona leikjum. Sérstaklega á útivelli því þá geta þristarnir haft áhrif á stemninguna í húsinu.“

Hvernig verður andrúmsloftið í Þorlákshöfn á föstudagskvöldið? „Það verður gaman og lætin verða rosaleg. Nánast allur bærinn vildi koma í kvöld en því miður geta ekki allir náð í miða. Vonandi ná sem flestir í miða fyrir leikinn á föstudaginn. Það verður líf og fjör enda viljum við fá alla á völlinn. Þá ætlum við að reyna að ná í bikarinn,“ sagði Emil enn fremur. 

mbl.is