Ótrúlegur Young kom Atlanta í forystu

Trae Young átti magnaðan leik.
Trae Young átti magnaðan leik. AFP

Atlanta Hawks er komið í 1:0-forystu í einvígi sínu gegn Milwaukee Bucks í úrslitaeinvígi Austurdeildarinnar í NBA-körfuboltanum í Bandaríkjunum.

Liðin mættust í fyrsta leik í Milwaukee í nótt og hafði Atlanta betur eftir spennandi og stórskemmtilegan leik, 116:113. Trae Young, sem fór á kostum fyrir Atlanta, tryggði liðinu sigurinn á vítalínunni í blálokin.

Young skoraði 48 stig, gaf 11 stoðsendingar og tók sjö fráköst. John Collins skoraði 23 stig og tók 15 fráköst. Giannis Antetokounmpo skoraði 34 stig fyrir Milwaukee, tók 12 fráköst og gaf níu stoðsendingar. Jrue Holiday skoraði 33 stig og gaf 10 stoðsendingar.

mbl.is