Lætur af störfum vegna anna í vinnu

Darri Freyr hefur látið af störfum sem aðalþjálfari KR.
Darri Freyr hefur látið af störfum sem aðalþjálfari KR. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er að láta af störfum sem aðalþjálfari liðsins vegna anna í vinnu,“ sagði Darri Freyr Atlason, fráfarandi þjálfari karlaliðs KR í körfubolta, í samtali við mbl.is.

Darri stýrði KR á þessari leiktíð og komst í undanúrslit Íslandsmótsins þar sem liðið tapaði að lokum fyrir Keflavík. Þrátt fyrir að láta af störfum sem aðalþjálfari vill Darri gjarnan halda áfram að vinna með KR-inigum. 

„Ég vil endilega vera hjá klúbbnum áfram og aðstoða við það sem þeir vilja að ég aðstoði við. Við erum áfram að byggja upp nútímalegt og fagmannlegt starf í kringum körfuna. Okkur fannst við taka flott skref í þá átt, bæði með tölfræðigreiningu og myndvinnslu og öðru slíku. Við viljum halda því áfram en ég hef ekki tíma til að vera þarna á hverju kvöldi,“ sagði Darri. 

Darri viðurkennir að liðið hafi ætlað sér lengra í vetur, en kveður aðalþjálfarastarfið sáttur að öðru leyti. „Samstarfið var frábært og mér fannst klúbburinn fara í rétta átt. Ég hefði auðvitað viljað vinna, en annars er ég þokkalega sáttur,“ sagði Darri.

mbl.is