Þjálfaralausir stuttu fyrir leiki gegn Íslandi

Erez Bittman ræðir við danska lærisveina sína.
Erez Bittman ræðir við danska lærisveina sína. Ljósmynd/Danska körfuknattleikssambandið

Danska körfuknattleikssambandið tilkynnti í dag að Ísraelsmaðurinn Erez Bittman láti af störfum sem landsliðsþjálfari karlaliðs þjóðarinnar eftir fjögur góð ár í starfi.

Bittman tók við danska liðinu árið 2017 og vann liðið átta fyrstu leiki sína undir stjórn hans. Danska liðið vann m.a. frækna sigra á Litháen og Tékklandi í undankeppni EM, en tókst þrátt fyrir það ekki að tryggja sér sæti á sínu fyrsta Evrópumóti.

Danmörk og Ísland eru saman í riðli í forkeppni HM 2023 og mætast 13. og 17. ágúst næstkomandi en riðilinn er leikinn í Svartfjallandi. Svartfjallaland er einnig í riðlinum og fara tvö efstu liðin í undankeppnina.

Uppfært klukkan 14:53: 
Danir hafa ráðið Króatann Arnel Dedic til starfa og eru því ekki lengur þjálfaralausir fyrir leiki gegn Íslandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert