Gamla ljósmyndin: Rembingskoss

Morgunblaðið/hag

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Snæfell varð í fyrsta skipti Íslandsmeistari karla í körfuknattleik vorið 2010 þegar liðið lagði Keflavík að velli í úrslitarimmu 3:2. Hólmarar fóru til Keflavíkur og unnu þar magnaðan stórsigur í oddaleik liðanna í úrslitunum 105:69. 

Er þetta eini Íslandsmeistaratitillinn hjá karlaliðinu til þessa en kvennaliðið vann þrjú ár í röð, 2014-2016. Bæði liðin voru undir stjórn Inga Þórs Steinþórssonar. 

Snæfell vann tvöfalt keppnistímabilið 2009-2010 og gleðin var skiljanlega mikil þegar sigurinn var í höfn í Keflavík. Svo mikil að Jón Ólafur Jónsson smellti í fögnuðinum rembingskossi, á nef liðsfélaga síns Emils Þórs Jóhannssonar, að því er virðist. 

Haraldur Guðjónsson, hag, myndaði fyrir Morgunblaðið og mbl.is á þessum árum og var réttur maður á réttum stað í fagnaðarlátunum. Meðfylgjandi mynd Haraldar af kossinum birtist í Morgunblaðinu föstudaginn 30. apríl árið 2010 ásamt ítarlegri umfjöllun. 

Emil gaf tóninn í oddaleiknum þegar hann setti niður þriggja stiga skot í fyrsta sókn Snæfells í leiknum. Emil fékk mikið lof fyrir frammistöðu sína í vörninni gegn hinum sigursæla Keflvíkingi Gunnari Einarssyni. 

Jón Ólafur var einn af heimamönnunum í liði Snæfells og var áberandi leikmaður í efstu deild á þessum árum.

 „Maður var búinn að bíða allt of lengi eftir þessu. Maður var alveg búinn að læra nógu djöf... mikið af því að tapa í úrslitum,“ sagði Jón Ólafur m.a. í samtali við Morgunblaðið í Keflavík þegar sigurinn var í höfn. Vísar hann til þess að Snæfell hafði tvívegis komist í úrslit á árunum á undan eða 2005 og 2008. Í báðum tilfellum töpuðu Hólmarar fyrir Keflvíkingum í úrslitum.

Íslandsmóti karla í körfuknattleik 2021 lauk í gærkvöldi í Þorlákshöfn. Tiltölulega fámennt bæjarfélag, Þorlákshöfn, lék eftir afrek annars tiltölulega fámenns bæjarfélags, Stykkishólms, frá árinu 2010 og varð Íslandsmeistari. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert