Fjandsamlegt umhverfi fyrir nýja klúbba

Brynjar Karl Sigurðsson.
Brynjar Karl Sigurðsson. Ljósmynd/Athenabasketball

Körfuknattleiksfélagið Aþena-UMFK frá Kjalarnesi mun leika í 1. deild kvenna í körfubolta á komandi leiktíð. Verður félagið með meistaraflokk í fyrsta skipti en það hefur til þessa einbeitt sér að yngri flokka starfi undir handleiðslu Brynjars Karls Sigurðssonar.

Hann vakti mikla athygli í heimildarmyndinni Hækkum rána sem kom út fyrr á þessu ári, en myndin fjallaði um 8-13 ára stúlkur sem hann þjálfaði hjá ÍR árið 2015.

„Okkur langar að stækka þennan hóp sem hefur verið að æfa á Kjalarnesi og við teljum að það sé best fyrir æfingahópinn okkar að við tökum inn eldri stelpur. Þær eru að komast á þann aldur sem þær eru að keppa við stelpur sem eru komnar í úrvalsdeildarlið. Þetta hentar okkur betur til að fá betri æfingahóp þar sem þær hafa verið fáar að æfa með okkur,“ sagði Brynjar í samtali við mbl.is.

Fyrrverandi landsliðskonan og Íslandsmeistarinn Bergþóra Holton Tómasdóttir, sem hefur þjálfað hjá Aþenu, mun koma inn í leikmannahópinn, auk þess sem félagið ætlar að bæta við sig öðrum reynslumiklum leikmönnum.

Bergþóra Holton tekur slaginn með Aþenu.
Bergþóra Holton tekur slaginn með Aþenu. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er óljóst hvernig hópurinn verður en Bergþóra Holton ætlar allavega að hætta að þjálfa og fara í gallann,“ sagði Brynjar. Hann útilokar ekki að erlendur leikmaður bætist við. „Við erum að skoða það en það er ekki í forgangi hjá okkur. Við munum örugglega gera það bara til að ná í hóp þar sem það er erfiðara stelpumegin. Það eru nokkrar í hópnum sem eru 14 ára en í meistaraflokknum verða þetta leikmenn sem eru 15 ára og eldri. Þær byrja í 1. deildinni þar sem lið eru t.d. að senda B-lið inn.“

Brynjar er enn að þjálfa stelpur sem voru í aðalhlutverki í Hækkum rána, en þær eru nú margar hverjar komnar á meistaraflokksaldur.

„Nú eru þær komnar á aldur þar sem þær mættu spila með meistaraflokki. Helmingurinn af þeim eru úr fræga hópnum úr ÍR og það voru bara sjö stelpur sem hófu leik á Kjalarnesi fyrir tveimur árum síðan. Við vorum að gantast með að ef það væri erfitt að fá yngri stelpur inn í þetta myndum við henda okkur í meistaraflokk. Dóttir mín sagðist ætla að hætta þessu ef það kæmi enn eitt árið þar sem við værum að taka inn byrjendur. Það eru nokkrar hjá mér sem eru helvíti góðar,“ sagði Brynjar. Hann veit lítið hversu sterkt liðið sé samanborið við önnur lið í 1. deildinni.

Brynjar Karl Sigurðsson.
Brynjar Karl Sigurðsson. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég veit ekkert um það,“ viðurkenndi Brynjar og hélt áfram. „Ég er að einbeita mér að því að búa til góðan æfingahóp því það hefur vantað upp á það síðustu tvö árin. Þetta hefur verið fámennt hjá okkur, svo aðalpælingin er að búa til góðan æfingahóp. Það er auðveldara að gera það ef við getum náð inn stelpum sem eru komnar á menntaskólaaldur. Ég er fyrst og fremst í þessu til að þroska og þróa leikmenn. Ég tek Íslandsmeistaratitla ekki alvarlega.“

Hann segir það erfitt fyrir nýtt félag að koma inn í deildakeppnina á Íslandi og þá sérstaklega þegar heimavöllur félagsins sé ekki löglegur keppnisvöllur. Liðið mun leika heimaleiki sína á Álftanesi og þurfa stuðningsmenn sem vilja hvetja liðið áfram því að fara í ágætisferðalag.  

Ljósmynd/Síminn

„Það er skelfileg aðstaða þegar kemur að því að gera velli löglega. Það er engin lögleg keppnisaðstaða hérna enda engin áhorfendaaðstaða. Þetta var það eina sem var hægt að finna fyrir okkur svo þeir sem fara á heimaleiki frá Kjalarnesi fara alltaf í útileiki. Það var varla hægt að fara lengra en þetta. Þetta er samt hátíð miðað við móralinn sem hefur mætt okkur í hreyfingunni. Það er búið að strá hindrunum niður fyrir þennan klúbb og þetta er eins og hindrunarhlaup. Það er ekki gert ráð fyrir því að nýir klúbbar spretti upp. Þetta er fjandsamlegt umhverfi fyrir það,“ sagði Brynjar og hélt áfram.

„Þetta er Aþena UMFK og þetta er 80 ára gamalt félag, en þetta er olnbogabarn í þessu batteríi. Það vantar að greiða götu félags sem kemur úr hverfi sem er klárlega vöntun á einhvers konar stemningu,“ sagði hann.

Ólíkt flestum öðrum félögum hér á landi er Aþena í einu og öllu rekið af sjálfboðaliðum. Brynjar og aðrir þjálfarar borga með sér í starfinu.

Brynjar Karl Sigurðsson körfuboltaþjálfari.
Brynjar Karl Sigurðsson körfuboltaþjálfari. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Þetta verður mjög fróðlegt að sjá hvað verður hægt að gera úr þessu. Við erum ekki beint Kría eða Kórdrengir eða eitthvað svoleiðis. Þetta er keyrt á yngri flokka pælingu og svo er allt í einu kominn meistaraflokkur. Þetta er sjálfboðavinna dauðans og andstæðan við önnur félög. Það eru allir þjálfarar að borga með sér og að kaupa búningana og keyra upp á Kjalarnes,“ sagði hann.

En hvers vegna leggur Brynjar svona mikið á sig í ólaunuðu starfi? „Ég elska þessa krakka. Þetta er geggjað og ég er með börnin mín í þessu líka. Þetta er eitthvað sem ég kann og þetta er hinn fullkomni staður til að ala upp börn,“ sagði Brynjar Karl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert