Love dregur sigur úr bandaríska hópnum

Kevin Love á æfingu með bandaríska landsliðinu í síðustu viku.
Kevin Love á æfingu með bandaríska landsliðinu í síðustu viku. AFP

Körfuknattleiksmaðurinn Kevin Love, leikmaður Cleveland Cavaliers í NBA-deildinni, hefur dregið sig úr bandaríska landsliðshópnum vegna meiðsla. Bandaríska landsliðið hefur keppni á Ólympíuleikunum í Tókýó eftir rúma viku.

Þetta hefur Adrian Wojnarowski, íþróttablaðamaður hjá ESPN, fengið staðfest og deildi hann stuttri yfirlýsingu frá Love á twitteraðgangi sínum:

„Ég er ótrúlega svekktur yfir því að vera ekki á leiðinni til Tókýó með bandaríska landsliðinu, en maður þarf að vera upp á sitt allra besta til þess að keppa á því stigi sem Ólympíuleikararnir eru og ég er bara ekki kominn á þann stað ennþá.“

Love var búinn að æfa með bandaríska liðinu undanfarna 10 daga en hefur dregið sig úr hópnum vegna þess að hann er enn að jafna sig á kálfameiðslum sem héldu honum frá keppni stóran hluta tímabilsins í NBA.

Fyrr í dag var greint frá því að Bradley Beal, leikmaður Washington Wizards, hafi þurft að draga sig úr bandaríska hópnum eftir að hann smitaðist af kórónuveirunni.

Ekki er búið að tilkynna hvaða leikmenn verða valdir í landsliðshópinn í stað Love og Beal.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert