Milwaukee einum sigri frá titlinum

P.J Tucker og Jrue Holiday fagna í nótt.
P.J Tucker og Jrue Holiday fagna í nótt. AFP

Milwaukee Bucks er komið í 3:2-forystu í úrslitaeinvígi sínu við Phoenix Suns í NBA-deildinni í körfuknattleik eftir nauman 123:119-sigur í æsispennandi leik, þeim fimmta í einvíginu, í Phoenix í nótt.

Phoenix var komið í 0:2-forystu eftir sigra í fyrstu tveimur leikjunum en Milwaukee hefur nú unnið þrjá leiki í röð og þarf aðeins einn sigur til viðbótar til þess að binda enda á 50 ára bið eftir meistaratitlinum í NBA, en Milwaukee vann sinn eina titil í deildinni árið 1971.

Fram til leiksins í nótt höfðu allir sigrarnir komið á heimavelli liðanna en sigur Milwaukee í nótt kom sem áður segir í Phoenix.

Þegar minna en mínúta var eftir var allt í járnum og staðan 120:119 eftir að Chris Paul minnkaði muninn með laglegri „lay-up“-körfu.

Grikkinn Giannis Antetokounmpo svaraði hinum megin með svakalegri troðslu eftir að Jrue Holiday hafði stolið boltanum og gefið á hann á ögurstundu og Khris Middleton skoraði síðasta stig leiksins þegar hann hitti úr öðru af tveimur vítaskotum sínum.

Naumur fjögurra stiga sigur þar með staðreynd og Milwaukee getur nú tryggt sér titilinn á heimavelli aðfaranótt næstkomandi miðvikudags.

Devin Booker í liði Phoenix átti enn einn stórleikinn og var stigahæstur í leiknum með 40 stig og Chris Paul samherji hans var með 21 stig.

Í liði Milwaukee áttu allir áðurnefndir leikmenn liðsins, þeir Giannis, Middleton og Holiday, frábæran leik. Giannis skoraði 32 stig, Middleton 29 og Holiday 27.

mbl.is