Sigur í síðasta vináttuleiknum

Damian Lillard og Ricky Rubio eigast við í leiknum í …
Damian Lillard og Ricky Rubio eigast við í leiknum í nótt. AFP

Bandaríska karlalandsliðið í körfuknattleik vann í nótt 83:76 sigur gegn því spænska í síðasta vináttulandsleik beggja liða áður en þau hefja keppni á Ólympíuleikunum í Tókýó í vikunni.

Bandaríska liðið hefur náð að hrista af sér slenið því það tapaði fyrstu tveimur vináttulandsleikjum sínum í undirbúningi sínum fyrir leikana, gegn Nígeríu og Ástralíu.

Í þriðja vináttuleiknum hafðist loks sigur, stórsigur gegn Argentínu og í nótt kom annar sigurinn í röð.

Í leiknum í nótt var Damian Lillard, leikmaður Portland Trail Blazers, stigahæstur Bandaríkjamanna með 19 stig og Keldon Johnson, sem leikur með San Antonio Spurs og var kallaður inn í leikmannahópinn um helgina, minnti vel á sig og skoraði 15 stig.

Stigahæstur í leiknum var hins vegar Spánverjinn Ricky Rubio, leikmaður Minnesota Timberwolves, með 23 stig. Samherjum hans gekk hins vegar fremur illa að hitta. Hitti liðið aðeins úr 40 prósent skota sinna í leiknum.

Bandaríkjamenn fóru hægt af stað í leiknum, sem var hnífjafn framan af, en náðu undirtökunum seint í þriðja leikhluta og bættu bara í í þeim fjórða þegar þeir komust mest í 13 stiga forystu, 65:52.

Bandaríkin og Spánn eru í efstu tveimur sætunum á heimslista Alþjóðakörfuknattleikssambandsins, FIBA, og sigurinn því kærkominn fyrir Bandaríkjamenn sem enda undirbúning sinn fyrir Ólympíuleikana á jákvæðum nótum.

Bandaríkin hefja leik á leikunum næstkomandi sunnudag og Spánn á mánudaginn eftir viku. Bandaríkin mæta Frakklandi og Spánn mætir heimamönnum í Japan.

mbl.is