Í Evrópukeppni eftir fimmtán ára hlé

Helena Sverrisdóttir hefur reynslu af því að leika með Haukum …
Helena Sverrisdóttir hefur reynslu af því að leika með Haukum í Evrópukeppni. mbl.is/Árni Sæberg

Kvennalið Hauka í körfuknattleik hefur tilkynnt þátttöku í Evrópubikar félagsliða, FIBA EuroCup, á komandi keppnistímabili og verður þetta í fyrsta sinn í fimmtán ár sem íslenskt kvennalið fer í Evrópukeppni.

Haukar eru reyndar eina íslenska félagið sem hefur tekið þátt í Evrópukeppni en það gerði Hafnarfjarðarliðið á tímabilunum 2005-06 og 2006-07. Liðið lék sex leiki hvort tímabil við afar sterka andstæðinga og tapaði þeim öllum. Andstæðingarnir voru frá Spáni, Frakklandi og Ítalíu í bæði skiptin.

Helena Sverrisdóttir var þá 17-18 ára leikmaður Hauka en hún er nú komin aftur til félagsins frá Val eftir að hafa orðið Íslandsmeistari þar í vor.

Haukaliðið mun spila í einni umferð í forkeppni, heima og heiman, seint í septembermánuði þar sem leikið verður um sæti í riðlakeppni 24 liða. Þar spila fjórtán lið um sjö sæti. Haukar eru í neðri styrkleikaflokki þegar dregið verður til umferðarinnar þann 19. ágúst. Mögulegir mótherjar Hafnfirðinganna eru eftirtaldir:

Flammes Carolo, Frakklandi
Tarbes Gespe Bigorre, Frakklandi
Ensino Lugo, Spáni
CB Islas Canarias, Spáni
VOO Liege, Belgíu
Clube Uniao Sportiva, Portúgal
Grengewald Hueschtert, Lúxemborg

mbl.is