Nýr þjálfari tekinn við Skallagrími

Úr leik Fjölnis og Skallagríms í vor.
Úr leik Fjölnis og Skallagríms í vor. mbl.is/Kristinn Magnússon

Körfuknattleiksdeild Skallagríms hefur ráðið Goran Miljevic til að taka við þjálfun meistaraflokks kvenna næstu tvö árin. Tekur hann við af Guðrúnu Ósk Ámundadóttur sem sagði upp störfum í sumar.

Goran er reynslumikill körfuboltaþjálfari og hefur hann meðal annars þjálfað í Þýskalandi og Serbíu en nú síðast var hann við störf hjá liði Hapoel Eliat í Ísrael. Ásamt því að þjálfa meistaraflokk í Borgarnesi verður hann yngri þjálfurum deildarinnar innan handar. Hann þekkir ágætlega til Íslands en hann hefur komið hingað til lands til að þjálfa í körfuboltabúðum, nú síðast í Vestrabúðunum árið 2019.

Guðrún Ósk stýrði liði Skallagríms síðustu tvö tímabil og gerði Borgnesinga meðal annars að bikarmeisturum á fyrra árinu. Liðið endaði í sjötta sæti úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð. Næsta leiktíð hefst 6. október næstkomandi og mætir Skallagrímur liði Keflavíkur í fyrstu umferð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert