Risasigur hjá bandarísku stjörnunum

Damian Lillard sækir að körfu Írana en hann var stigahæstur …
Damian Lillard sækir að körfu Írana en hann var stigahæstur Bandaríkjamanna í nótt. AFP

Bandaríkjamenn hristu af sér ósigurinn gegn Frökkum í fyrstu umferð körfuknattleikskeppni karla á Ólympíuleikunum í Tókýó í morgun þegar þeir unnu stórsigur á liði Írans.

Íranar áttu aldrei möguleika gegn NBA-stjörnunum sem voru með örugga forystu, 60:30, í hálfleik og sigruðu að lokum 120:66. 

Damian Lillard skoraði 21 stig fyrir Bandaríkjamenn, Devin Booker 16, Jayson Tatum 14 og Zach LaVine 13. Þá gerðu Khris Middleton og Kevin Durant 10 stig hvor og LaVine átti 8 stoðsendingar í leiknum. Hjá Íran voru Hamed Haddadi og Mohammad Jamshidijafarabadi atkvæðamestir með 14 stig hvor.

Bandaríska liðið er þá með sigur og tap eftir tvo leiki og mætir Tékkum í lokaleik A-riðils. Frakkar og Tékkar sem unnu bæði leiki sína í fyrstu umferð mætast í dag.

Þá unnu Þjóðverjar mikilvægan sigur á Nígeríumönnum í B-riðli, 99:92. Þýskaland er með sigur og tap en Nígería hefur tapað báðum sínum. Ástralía og Ítalía sem unnu bæði í fyrstu umferð mætast síðar í dag. Staðan var 50:50 í hálfleik og 74:74 fyrir síðasta leikhlutann. Johannes Voigtmann skoraði 19 stig fyrir Þjóðverja en Jordan Nwora 33 stig fyrir Nígeríumenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert