Durant í sögubækurnar

Kevin Durant er stigahæsti leikmaður bandaríska landsliðsins á Ólympíuleikunum.
Kevin Durant er stigahæsti leikmaður bandaríska landsliðsins á Ólympíuleikunum. AFP

Kevin Durant, leikmaður Brooklyn Nets í NBA-körfuboltanum í Bandaríkjunum, skráði sig í sögubækurnar hjá landsliði Bandaríkjanna í dag er hann gerði 23 stig í 119:84-sigri á Tékklandi.

Durant er orðinn stigahæsti leikmaðurinn í sögu bandaríska landsliðsins á Ólympíuleikum en hann hefur gert 339 stig. Tók hann fram úr Carmelo Anthony sem skoraði 336 stig á leikunum.

Stórstjarnan LeBron James er í þriðja sæti með 273 stig, David Robinson í fjórða með 270 stig og goðsögnin Michael Jordan í fimmta með 256 stig. Með sigrinum gulltryggðu Bandaríkin sér sæti í átta liða úrslitunum.

mbl.is