Ljóst hvaða liðum Ísland mætir í fyrri umferð undankeppni HM

Elvar Már Friðriksson og félagar í íslenska landsliðinu eiga hörkuleiki …
Elvar Már Friðriksson og félagar í íslenska landsliðinu eiga hörkuleiki fyrir höndum. Ljósmynd/FIBA

Dregið var í fyrri umferð undankeppni HM 2023 í körfuknattleik karla í höfuðstöðvum Alþjóðakörfuknattleikssambandsins, FIBA, í Mies í Sviss í dag. Þar dróst íslenska landsliðið í H-riðil með Rússlandi, Hollandi og Ítalíu.

Ísland er í neðsta styrkleikaflokki að þessu sinni og fær því þessar þrjár sterku þjóðir sem andstæðinga í fyrri umferð undankeppninnar. Þrjú lið af fjórum í hverjum riðli komast áfram í aðra umferð keppninnar þar sem þrjú önnur lið úr öðrum riðli bætast við.

Að þeirri umferð lokinni fara aftur þrjú efstu liðin á lokamót HM 2023, sem fram fer á Filippseyjum, í Indónesíu og í Japan, eða alls 12 lið frá Evrópu. Þau 24 lönd sem tryggja sig inn í aðra umferð keppninnar munu einnig tryggja sig í undankeppni EM 2025 og þurfa ekki að taka þátt í forkeppnum fyrir þá keppni,

mbl.is