Reynsluboltar tínast til Lakers

Rajon Rondo.
Rajon Rondo. AFP

Ekki er óalgengt að heyra þjálfara í boltaíþróttum tala um að þeir séu með ungt lið eða unga stráka í sínum röðum. Ósennilegt er að þessar lýsingar verði notaðar um lið Los Angeles Lakers í miklum mæli í NBA-deildinni í vetur. 

Rajon Rondo er aftur genginn í raðir Lakers á frjálsri sölu en Rondo er 35 ára gamall. Hann var hjá liðinu eitt tímabil, 2019-2020, og varð þá meistari. Sömu sögu er að segja um Dwight Howard. Hann er kominn aftur til Lakers eftir eitt ár hjá Philadelphia 76ers. Howard verður 36 ára í desember.

Carmelo Anthony er á meðal þeirra sem fóru til Lakers í sumar á frjálsri sölu en hann er 37 ára. Þá kom Russell Westbrook til Lakers eftir leikmannaskipti en hann verður „ekki nema“ 33 ára í nóvember.

Fyrir hjá Lakers er auðvitað LeBron James sem verður 37 ára í lok árs og Marc Gasol sem er 36 ára. 

Þá má minnast á síður þekkta leikmenn í hópnum eins og Jared Dudley 36 ára og Wesley Matthews sem er að verða 35 ára. 

Carmelo Anthony lék tvívegis á Ólympíuleikum með LeBron James.
Carmelo Anthony lék tvívegis á Ólympíuleikum með LeBron James. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert