Álftanes og Sindri með sigra

Cedrick Bowen í leik með KR-ingum árið 2016.
Cedrick Bowen í leik með KR-ingum árið 2016. mbl.is/Golli

Cedrick Bowen skoraði 21 stig fyrir Álftanes þegar liðið vann þægilegan 84:67-sigur gegn Fjölni í 1. umferð bikarkeppninnar í körfuknattleik á Álftanesi í kvöld.

Álftanes var sterkari aðilinn í leiknum og leiddi með fimmtán stigum í hálfleik, 44:29.

Viktor Smári Steffensen var stigahæstur Fjölnismanna með 14 stig en Álftanes mætir Tindastóli í 2. umferðinni 7. september á Sauðárkróki.

Þá skoraði Simun Kovac 27 stig ásamt því að taka þrettán fráköst fyrir Sindra þegar liðið vann 95:74-sigur gegn Skallagrími á Höfn í Hornafirði.

Elijah Bailey var stigahæstur Skallagrímsmanna með 26 stig en Sindri mætir Vestra á Ísafirði í 2. umferð keppninnar 7. september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert