Haukar bikarmeistarar í sjöunda sinn

Haukar fagna í leikslok.
Haukar fagna í leikslok. mbl.is/Arnþór

Haukar urðu í dag bikarmeistarar kvenna í körfuknattleik í sjöunda sinn í sögu félagsins og í fyrsta skipti í sjö ár.

Haukar lögðu Fjölni að velli í úrslitaleik 94:89 VÍS-bikarsins sem fram fór í Smáranum í Kópavogi. Haukar höfðu yfir 52:38 að loknum sveiflukenndum fyrri hálfleik.

Haukar eru þar með bikarmeistarar árið 2021 en bikarkeppninni var frestað síðasta vetur vegna heimsfaraldursins. Haukar léku til úrslita við Val um Íslandsmeistaratitilinn á síðustu leiktíð og Fjölnir fór í undanúrslit Íslandsmótsins. 

Eftir að hafa fengið Helenu Sverrisdóttur heim í Hafnarfjörðinn þóttu Haukar sigurstranglegra liðið í úrslitaleiknum. Ef til vill kom það morgum í opna skjöldu þegar Fjölnir tók afgerandi frumkvæði í leiknum fyrsta leikhluta. Þá hittu Grafarvogsbúar afskaplega vel og voru yfir 29:21 að loknum fyrsta leikhluta. Fjölnir hafði þá hitt úr fjórum af sex þriggja stiga skotum sínum. 

En leikurinn gerbreyttist í öðrum leikhluta því að honum loknum hafði staðan breyst úr átta stiga forskoti Fjölnis í fjórtán stiga forskot Hauka. Haiden Palmer sem Haukar fengu frá Snæfelli í sumar tók af skarið í öðrum leikhluta. Þá skoraði hún 14 stig og var með öll völd á vellinum. 

Í síðari hálfleik var staðan erfið fyrir Fjölni en leikmenn liðsins gáfust ekki upp. Liðið gerði áhlaup annað slagið en sigur Hauka virtist ekki vera í hættu. Með mikilli seiglu tókst Fjölni þó að minnka muninn niður í fimm stig þegar enn voru þrjár mínútur eftir. Þá náði reynsluboltinn Helena Sverrisdóttir í þrjú stig og tryggði með því Haukum fyrsta bikar liðsins í sjö ár. 

Alls skoraði Helena 26 stig, tók 9 fráköst, gaf 9 stoðsendingar og stal boltanum fjórum sinnum. Palmer skoraði 23 stig þegar uppi var staðið, gaf 10 stoðsendingar og tók 8 fráköst. Haukar voru klókir að næla í Palmer en leikstjórnandi liðsins Þóra Kristín Jónsdóttir er farin til náms í Danmörku. U18 ára landsliðskonan Tinna Guðrún Alexandersdóttir skoraði 15 stig fyrir Hauka. 

Liðsfélagi hennar úr landsliðinu Emma Sóldís Svan Hjördísardóttir var stigahæst hjá Fjölni með 19 stig. Dagný Lísa Davíðsdóttir og Iva Bosnjak skoruðu 18 stig hvor. 

Lið Fjölnis: Margrét Ósk Einarsdóttir fyrirliði, Iva Bosnjak, Sigrún María Birgisdóttir, Bergdís Anna Magnúsdóttir, Emma Hrönn Hákonardóttir, Ciani Cryor, Stefanía Hansen, Emma Sóldís Hjördísardóttir, Matilda Soldís Hjördísardóttir, Dagný Lísa Davíðsdóttir, Heiður Karlsdóttir, Sanja Orozovic.

Lið Hauka: Haiden Palmer, Jana Falsdóttir, Lovísa Henningsdóttir, Tinna Guðrún Alexanderdóttir, Rósa Björk Pétursdóttir, Magdalena Gísladóttir, Kristín Ríkey Ólafsdóttir, Eva Margrét Kristjánsdóttir, Sólrún Inga Gísladóttir, Bríet Sif Hinriksdóttir, Elísabeth Ýr Ægisdóttir, Helena Sverrisdóttir fyrirliði. 

Fjölnir - Haukar 89:94

Smárinn, Bikarkeppni kvenna, 18. september 2021.

Gangur leiksins:: 7:2, 11:10, 23:18, 29:21, 31:28, 31:34, 33:42, 38:52, 46:55, 51:66, 55:69, 61:76, 64:79, 71:83, 80:89, 89:94.

Fjölnir: Emma Sóldís Svan Hjördísardóttir 19/7 fráköst, Iva Bosnjak 18/10 fráköst, Dagný Lísa Davíðsdóttir 18/12 fráköst, Ciani Cryor 15/8 fráköst/13 stoðsendingar, Sanja Orozovic 15/4 fráköst, Margret Osk Einarsdottir 3, Stefanía Tera Hansen 1.

Fráköst: 33 í vörn, 9 í sókn.

Haukar: Helena Sverrisdóttir 26/9 fráköst/9 stoðsendingar, Haiden Denise Palmer 23/8 fráköst/10 stoðsendingar, Tinna Guðrún Alexandersdóttir 15, Elísabeth Ýr Ægisdóttir 13/6 fráköst, Eva Margrét Kristjánsdóttir 9/4 fráköst, Bríet Sif Hinriksdóttir 6, Rósa Björk Pétursdóttir 2.

Fráköst: 24 í vörn, 8 í sókn.

Dómarar: Ísak Ernir Kristinsson, Davíð Kristján Hreiðarsson, Aron Rúnarsson.

Áhorfendur: 360

Helena Sverrisdóttir með boltann í dag.
Helena Sverrisdóttir með boltann í dag. mbl.is/Arnþór
Fjölnir 89:94 Haukar opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert