Sér ekki eftir félagaskiptunum

Haukar fagna í leikslok og Haiden Palmer er fyrir miðju.
Haukar fagna í leikslok og Haiden Palmer er fyrir miðju. mbl.is/Arnþór

Haiden Denise Palmer átti frábæran leik fyrir Hauka þegar liðið varð bikarmeistari í Smáranum í dag með sigri gegn Fjölni í úrslitaleik 94:89. 

Palmer skoraði fjórtán stig í öðrum leikhluta þegar Haukar snéru erfiðri stöðu í mjög góða en liðið var 52:38 yfir að loknum fyrri hálfleik þrátt fyrir að hafa verið undir 21:29 eftir fyrsta leikhluta. 

„Ég minnti sjálfa mig á að vera ákveðin og spila agressíft. Ég hitti úr tveimur skotum utan af velli sem var gott fyrir sjálfstraustið. Í fyrsta leikhluta var vörnin ekki í lagi hjá okkur því þá fékk Fjölnir mörg opin skot. Hverju sem um er að kenna. Sem lið þá spiluðum við miklu betri vörn í öðrum leikhluta. Við urðum mun einbeittari í vörninni og það hafði sitt að segja,“ sagði Palmer þegar mbl.is spjallaði við hana í Smáranum. 

„Þetta var mjög skemmtilegt og heldur betur góð byrjun á nýju keppnistímabili. Þetta er einnig mjög jákvætt fyrir okkur því við erum á leið í leiki í Evrópukeppni. Við höfum spilað á móti góðum liðum í bikarnum og það hjálpar okkur að vera tilbúnar í Evrópuleikina. Í þeim leikjum munu koma kaflar þar sem við verðum settar undir pressu. Í bikarleikjunum byrjuðum við stundum rólega og vorum undir pressu. Þá þurftum við að stilla strengina og finna taktinn. Ég held að bikarleikirnir muni hjálpa okkur mikið,“ sagði Palmer en Haukar mættu bæði Keflavík og Val á leið sinni í úrslitin. 

Haiden Palmer lék með Snæfelli 2015-2016 og aftur á síðasta tímabili. Var auðveld ákvörðun fyrir hana að ganga til liðs við Hauka í sumar? 

„Já það má segja það. Liðið var í úrslitum Íslandsmótsins á síðasta tímabili. Ég hafði heyrt mjög vel talað um þjálfarann [Bjarna Magnússon] og hef auðvitað séð Helenu [Sverrisdóttur] spila. Ávörðunin var því frekar auðveld og enn sem komið er hefur allt gengið að óskum,“ sagði Palmer og hló. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert