„Skrítið en við erum stolt“

Leikmenn Hauka fagna sigri í bikarkeppninni. Bríet Sif Hinriksdóttir gerir …
Leikmenn Hauka fagna sigri í bikarkeppninni. Bríet Sif Hinriksdóttir gerir það með nokkrum tilþrifum. mbl.is/Arnþór

Bjarni Magnússon stýrði Haukum til sigurs í VÍS-bikar kvenna í körfuknattleik í Smáranum í Kópavogi í dag en Bjarni var einnig í þjálfarateyminu þegar Haukar unnu síðast bikarinn árið 2014. 

„Við byrjuðum ekki vel en Fjölnir gerði mjög vel í að keyra á okkur. En okkur tókst að stoppa það nokkuð vel í öðrum leikhluta. Við spiluðum vel í þriðja leikhluta og um miðjan fjórða leikhluta fannst mér við vera komin með þetta. En mér varð ekki að ósk minni,“ sagði Bjarni og glotti þegar mbl.is tók hann tali. Haukar voru með fimmtán stiga forskot í fjórða leikhluta en með baráttu og klókindum minnkuðu Fjölniskonur muninn niður í fimm stig þegar enn voru þrjár mínútur eftir.

„Ég verð að hrósa Fjölnisliðinu fyrir það. Þær spiluðu mjög vel. Þær skutu boltanum vel og refsuðu okkur þegar við gerðum mistök. Ég er bara mjög ánægður með að vinna þennan leik.“

Bjarni Magnússon þjálfari Hauka.
Bjarni Magnússon þjálfari Hauka. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Leið Hauka að bikarmeistaratitlinum var ekki beinlínis greið. Liðið mætti Keflavík í 8-liða úrslitum, Val í undanúrslitum og Fjölni í úrslitum.

„Já þetta voru þau fjögur lið sem voru í undanúrslitum Íslandsmótsins á síðasta tímabili. Fyrir okkur var mjög gott að fá bikarkeppnina á þessum tímapunkti. Það var mjög gott að mæta þessum liðum. Við fundum á móti Val nokkur atriði sem við þurfum að vinna í og einnig kom í ljós í dag að við þurfum að vinna í nokkrum þáttum leiksins,“ sagði Bjarni en á fimmtudaginn leika Haukar fyrri leikinn gegn Uniao Sportiva í Evrópubikarnum.

Bjarni hefur bæði orðið bikarmeistari sem leikmaður og þjálfari. Hann hefur því samanburðinn við að verða bikarmeistari í Laugardalshöllinni.

„Það er alltaf ákveðin rómantík yfir því að vera í Höllinni. Þessi salur í Smáranum er salur sem við mætum í nokkrum sinnum á hverju ári. Það er svolítið skrítið að verða bikarmeistari í september. Það er skrítið en við erum stolt.“

mbl.is