Löng bið Njarðvíkinga á enda

Logi Gunnarsson reynir þriggja stiga skot í Smáranum í kvöld.
Logi Gunnarsson reynir þriggja stiga skot í Smáranum í kvöld. mbl.is/Skúli B. Sig

Njarðvík er bikarmeistari karla í körfuknattleik árið 2021 eftir frábæran sigur gegn Stjörnunni í úrslitaleik í Smáranum í Kópavogi í kvöld.

Leiknum lauk með 97:93-sigri Njarðvíkinga en Dedrck Basile fór á kostum í liði Njarðvíkur og skoraði 24 stig, þar af sex þriggja stiga körfur.

Leikurinn var gríðarlega hraður strax frá fyrstu mínútu og leiddu Njarðvíkingar með þremur stigum eftir fyrsta leikhluta, 29:26. Njarðvíkingar voru sterkari aðilinn í öðrum og juku forskot sitt í fimm stig, 54:49, og þannig var staðan í hálfleik.

Njarðvík byrjaði seinni hálfleikinn af gríðarlegum krafti og var forskot þeirra orðið sextán stig að þriðja leikhluta loknum, 80:64. Garðbæingar reyndu hvað þeir gátu að snúa leiknum sér í vil í fjórða leikhluta en Njarðvíkingar voru skrefi á undan allan tímann og fögnuðu sanngjörnum sigri í leikslok.

Fotios Lampropoulos skoraði 20 stig í liði Njarðvíkur og Mario Matasovic skoraði 17 stig ásamt því að taka 17 fráköst.

Hjá Garðbæingum var Hilmar Smári Henningsson stigahæstur með 24 stig og níu stoðsendingar. Robert Turner skoraði 21 stig og Shawn Hopkins 18 stig.

Þetta var fyrsti bikarmeistaratitill Njarðvíkur síðan árið 2005 og jafnframt fyrsti bikar félagsins síðan þeir urðu Íslandsmeistarar tímabilið 2005-06 eftir sigur gegn Skallagrím í úrslitum Íslandsmótsins.

Stjarnan 93:97 Njarðvík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert