Þetta er frekar leiðinlegt

Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar.
Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég vil byrja á því að óska Njarðvík til hamingju með sigurinn, sagði Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar,“ í samtali við mbl.is eftir 93:97-tap liðsins gegn Njarðvík í úrslitaleik bikarkeppninnar í körfuknattleik, VÍS-bikarnum, í Smáranum í Kópavogi í kvöld.

„Þeir eru vel að sigrinum komnir og voru einfaldlega betri en við í fjörutíu mínútur. Þeir áttu sigurinn því fyllilega skilið. Við vorum að reyna vera fastir fyrir gegn þeim en þetta var oft á tíðum heldur ráðalaust hjá okkur fannst mér.

Við hefðum þurft að stjórna leiknum talsvert betur. Njarðvíkingarnir eru komnir lengra á veg en við og það er oftast þannig að betra liðið vinnur. Vonandi verðum við samt sem áður betri eftir því sem líður á tímabil,“ sagði Arnar.

Stjarnan hafði unnið bikarkeppnina undanfarin tvö tímabil og hefði getað unnið þriðja árið í röð í kvöld.

„Ég var lítið að spá í þessu fyrr en ég kom hingað inn í hús. Þá fór maður að hugsa að það væri nú alveg gaman að vinna þessa keppni þriðja árið í röð.

Ég hef aldrei upplifað það að tapa bikarúrslitaleik áður. Ég hafði farið þrisvar í úrslit og unnið þrisvar og þetta er bara frekar leiðinlegt,“ bætti Arnar við í samtali við mbl.is.

mbl.is