„Annar leikhlutinn fór með okkur“

Dagný einbeitt í úrslitaleiknum í Smáranum.
Dagný einbeitt í úrslitaleiknum í Smáranum. mbl.is/Arnþór

Dagný Lísa Davíðsdótt­ir lék vel með Fjölni í bikarúrslitaleiknum gegn Haukum í Smáranum í dag og skoraði 18 stig auk þess að taka 12 fráköst. 

„Ég held að annar leikhlutinn hafi farið með okkur. Þær skoruðu 31 stig í öðrum leikhluta. Það er óásættanlegt og sérstaklega í svona leik. Við þurfum að vera tilbúnari í að spila vel í fjörtíu mínútur. Úrslitin voru því ekki okkar megin í dag en ég held að við höfum sýnt margt jákvætt í dag og getum verið stoltar,“ sagði Dagný og hún hlýtur að hafa haft góða tilfinningu eftir fyrsta leikhlutann. Þá hitti Fjölnisliðið frábærlega og var yfir 29:21 að honum loknum. 

„Já það var gaman að byrja af krafti og það skiptir máli því þá er sjálfstraustið til staðar. En við hefðum þurft að halda jöfnum og góðum hraða. Við leyfðum Val að stjórna hraðanum um tíma. Við náðum því ekki alveg í dag en það er bara eitthvað sem við þurfum að halda áfram að vinna áður en Íslandsmótið byrjar.“

Leikirnir í bikarkeppninni sem nú er afstaðin voru fyrstu alvöru leikir Dagnýjar hér heima í langan tíma því hún hefur alið manninn í Bandaríkjunum síðustu sjö árin. Þangað fór hún í menntaskóla (high school) og þaðan lá leiðin í háskólanám. Hvernig líst henni á íslensku liðin miðað við það sem hún hefur séð í bikarleikjunum?

„Eftir sjö ár úti er ég þeim mun spenntari að koma heim og spila. Hér eru þrusugóðir leikmenn og öflug lið. En þetta er svolítið frábrugðið því sem ég kynntist í Bandaríkjunum. Þar vandist maður öðruvísi hraða í leikjum og hávaxnari leikmönnum. Leikstíllinn er öðruvísi en hér heima er mikil herkænska í leikjunum og mikil hugsun á bak við. Það er spennandi að spila í deildinni hér heima. Ég vonaðist eftir því að það væru fleiri sterk lið hér heima en vonandi bætist bara við á komandi árum þannig að liðum fjölgi í efstu deild,“ sagði Dagný þegar mbl.is tók hana tali í Smáranum. 

mbl.is