Landsliðin gætu þurft að spila heimaleikina í Danmörku

Íslenska karlalandsliðið er komið áfram í 1. umferð undankeppni HM …
Íslenska karlalandsliðið er komið áfram í 1. umferð undankeppni HM 2023 sem fram fer í Indónesíu, Japan og Filippseyjum. Ljósmynd/FIBA

Íslensku körfuknattleikslandsliðin hefja leik í undankeppni HM og undankeppni EM í nóvember á þessu ári en þar sem Laugardalshöll er ónothæf er óvíst hvar heimaleikir liðsins í undankeppnunum munu fara fram.

Karlalandsliðið dróst í H-riðil undankeppni HM 2023 ásamt Ítalíu, Rússlandi og Hollandi og verður leikið í þremur landsleikjagluggum, heima og heiman, í nóvember 2021 og febrúar og júní á næsta ári.

Þá dróst kvennaliðið í C-riðil undankeppni EM  2023 ásamt Rúmeníu, Ungverjalandi og Spáni en líkt og hjá körlunum verður leikið í þremur landsleikjagluggum, heima og heiman, í nóvember 2021, nóvember 2022 og febrúar 2023.

Leki kom upp í Laugardalshöllinni í nóvember á síðasta ári og verður hún að öllum líkindum óstarfshæf fyrir íþróttaviðburði þangað til næsta sumar.

„Staðan er bara þannig að við getum ekki spilað í Laugardalshöllinni og við þurfum því að gera aðrar ráðstafanir,“ sagði Hannes Sigurbjörn Jónsson, formaður Körfuknattleikssambands Íslands, KKÍ, í samtali við mbl.is.

„Við höfum þurft undanþágu frá FIBA til þess að spila í Laugardalshöllinni undanfarin ár og forráðamenn FIBA eru ekki hrifnir af því að við séum að sækja um undanþágu ofan á aðra undanþágu til þess að spila þessa landsleiki á öðrum leikstað.

Við höfum aðeins verið að horfa á Ásvelli sem hugsanlegan leikstað þar sem kvennalið Hauka fékk undanþágu til að spila sína leiki í Evrópubikarnum þar.  Því miður er FIBA samt ekki jafn jafnréttissinnuð og við og kröfurnar kvennamegin eru ekki alveg þær sömu og karlamegin,“ sagði Hannes.

Hörður Axel Vilhjálmsson, fyrirliði karlalandsliðsins, ásamt Hannesi S. Jónssyni, formanni …
Hörður Axel Vilhjálmsson, fyrirliði karlalandsliðsins, ásamt Hannesi S. Jónssyni, formanni KKÍ. Ljósmynd/KKÍ

Þolinmæðin á þrotum

Íslenska liðið gæti því lent í því að spila heimaleiki sína á erlendri grundu í undankeppninni.

„Ef við lögum ekki þá hluti sem þarf að laga þá gætum við lent í því að þurfa spila heimaleikina okkar í nóvember á hlutlausum velli, í Danmörku jafnvel eða Færeyjum. Það er einstaklega svekkjandi enda orðið ansi langt síðan við spiluðum alvöru heimaleik hér á landi vegna kórónuveirufaraldursins. Kristinn Geir Pálsson, afreksstjóri KKÍ, er í fullri vinnu við að reyna leysa þessi mál.

Mögulega getum við fengið enn eina undanþáguna en þolinmæðin í okkar garð innan FIBA er bara einfaldlega á þrotum ef svo má segja. Það eru ákveðnar kröfur gerðar til framkvæmd landsleikja innan sambandsins og þess vegna höfum við verið að berjast svona ötullega fyrir nýjum þjóðarleikvangi.“

Laugardalshöllin er ónothæf vegna leka sem þar kom upp í …
Laugardalshöllin er ónothæf vegna leka sem þar kom upp í nóvember 2020. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Hægt að leggja niður landsliðin

Formaður KKÍ er ósáttur með íslensk stjórnvöld og aðgerðaleysis þeirra í garð íslensks afreksíþróttafólks.

„Nú er enn ein ríkistjórnin að hverfa frá störfum og það er ekkert í gangi. Það hafa allir sínar hugmyndir og eru tilbúnir að taka þetta lengra en svo stoppar þetta alltaf og ekkert gerist. Vissulega hefur kórónuveirufaraldurinn haft sitt að segja en ég sjálfur er í nefnd um nýjan þjóðarleikvang og ég hef ekki hugmynd um hver staðan er.

Nú er að koma kosningar og þetta virðist ekki vera í miklum forgangi hjá neinum stjórnmálaflokki. Auðvitað eru mikilvæg málefni í forgrunni en ég spyr samt líka hvort við sem þjóð viljum standa fyrir öflugu afreksíþróttastarfi hér á landi eða ekki? Ef svarið er einfaldlega nei þá getum við bara hætt þessu núna og lagt niður þessi landslið.“

Lilja Alfreðsdóttir er starfandi íþróttamálaráðherra þjóðarinnar.
Lilja Alfreðsdóttir er starfandi íþróttamálaráðherra þjóðarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Höllin barn síns tíma

Laugardalshöllin gæti nýst sérsamböndunum næstu árin en til langs tíma litið verður að fara huga að nýjum þjóðarleikvangi.

„Svo það sé bara sagt þá búum við við eina verstu aðstöðu í Evrópu, bæði þegar kemur að körfubolta og öðrum inni íþróttum. Íþróttamálaráðherrarnir í gegnum tíðina hafa allir verið boðnir og búnir að breyta þessu í rétta átt en samt gerist ekkert. Það er ekki nóg að tala um þetta því það þarf að byrja þessa vinnu sem fyrst.

Landsliðin okkar eiga ekki heimili og er það í alvörunni eitthvað sem bæði stjórnmálafólk og fólkið í landinu vill? Laugardalshöll er byggð árið 1965 og hún er einfaldlega barns síns tíma. Þá vantar félagsliðum á borð við Ármann heimili líka en þar eru um það bil 400-500 skráðir iðkendur. Þetta er ekki í boði lengur og þessu þarf að breyta,“ bætti formaðurinn við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert