„Spiluðum ótrúlega góða vörn“

Tinna Guðrún sækir að körfu Sportiva í kvöld en hún …
Tinna Guðrún sækir að körfu Sportiva í kvöld en hún skoraði 14 stig í leiknum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég var svolítið stressuð fyrir leikinn,“ sagði Tinna Guðrún Alexandersdóttir í samtali við mbl.is en hún var mjög atkvæðamikil fyrir Hauka í kvöld í sigrinum gegn portúgalska liðinu Uniao Sporti­va á Ásvöllum. 

Tinna Guðrún er aðeins 18 ára gömul en hún var mjög áræðin strax frá byrjun og ekki var að sjá að hún hafi fundið fyrir stressi. „Ég reyndi fyrir vikið að undirbúa mig eins vel og ég gat og setja eins mikla orku í leikinn og hægt var. Það gekk upp.“

Tinna var ánægð með vörnina hjá Haukum í leiknum en Haukar unnu 81:76 og höfðu oftar en ekki frumkvæðið í leiknum. 

„Ég myndi segja að vörnin hjá okkur hafi ráðið úrslitum. Við spiluðum ótrúlega góða vörn allan tímann. Við vissum að það yrði erfitt gegn hávöxnu stelpunum þeirra en við gerðum það mjög vel,“ sagði Tinna en Hafnfirðingarnir höfðu ekki séð mikið til portúgalska liðsins. 

„Við vissum voða lítið en vissum þó að liðið væri með hávaxna leikmenn sem eru góðar með boltann. En annars höfðum við séð lítið til þeirra. Þetta er gott lið og við vissum að leikurinn yrði erfiður. Það var spennandi að koma inn í leikinn og mæta góðum leikmönnum,“ útskýrði Tinna og sagði helsta muninn á portúgalska liðinu og íslenskum liðum vera að Sportiva er með fleiri hávaxna leikmenn. 

„Þessar hávöxnu eru stærri en stóru leikmennirnir í íslensku liðunum. Það er munur á því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert