Hverfandi líkur á þátttöku Irvings

Kyrie Irving stendur fastur á sínu og vill ekki láta …
Kyrie Irving stendur fastur á sínu og vill ekki láta bólusetja sig. AFP

Kyrie Irving, ein af stjörnum Brooklyn Nets í NBA-deildinni í körfuknattleik, vill ekki láta bólusetja sig við kórónuveirunni og getur ekki æft með liðinu af þeim sökum, auk þess sem honum yrði bannað að spila heimaleiki þess.

Reglur í New York-borg, þar sem Brooklyn er staðsett, kveða á um að óbólusettir einstaklingar megi ekki sækja fjölmenna viðburði, sen þýðir að Irving má ekki æfa í Barclays-höll liðsins né spila heimaleiki þar.

Liðið fór á dögunum í æfingaferð til San Diego í Kaliforníu-ríki, að hluta til svo Irving gæti æft með því, en hyggst ekki vera með æfingabúðir sínar annars staðar en í New York þegar tímabilið í NBA-deildinni hefst eftir um tvær vikur.

Raunar er hópurinn kominn aftur heim til New York-borgar og var Irving hvergi sjáanlegur á æfingu í Barclays-höllinni í gær.

Hann þyrfti einungis að fá eina sprautu við veirunni til þess að fá leyfi til að æfa og spila á heimavelli en Irving stendur fastur á sínu og vill ekki láta bólusetja sig. Vonir Brooklyn-manna fara líka minnkandi samkvæmt Adrian Wojnarowski og Brian Windhorst, íþróttablaðamönnum hjá ESPN.

Samkvæmt þeim hefur engin ákvörðun verið tekin um hvort liðið komi til móts við Irving þannig að hann geti tekið þátt í útileikjum Brooklyn, en samkvæmt reglum NBA-deildarinnar gæti hann tekið þátt í þeim flestum.

Deildin og leikmannasamtök NBA komust að samkomulagi á dögunum um að óbólusettir leikmenn sem missa af leikjum vegna svæðisbundinna reglna í tengslum við bólusetningar muni þurfa að taka á sig launalækkanir fyrir hvern leik sem þeir missa af.

Irving sæi fram á að tapa um 380.000 Bandaríkjadölum í hverjum leik sem hann myndi missa af en sem áður segir virðist það ekki ætla að breyta ákvörðun hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert