Þrír öflugir mótherjar

Helena Sverrisdóttir í leik með Haukum gegn Uniao Sportiva í …
Helena Sverrisdóttir í leik með Haukum gegn Uniao Sportiva í síðasta mánuði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Helena Sverrisdóttir, landsliðskona í körfuknattleik og fyrirliði Hauka, segir að Haukar mæti þremur mjög öflugum liðum í riðlakeppni Evrópubikarsins í körfuknattleik. Haukar eru í L-riðli og mæta þar frönsku liðunum Villeneuve d‘Ascq og Tarbes og tékkneska liðinu Brno.

„Við fengum tvö sterk frönsk lið og eitt gott tékkneskt lið. Við mætum liðum sem eru 100% atvinnumannalið þótt okkar lið sé ekki alveg byggt upp þannig. Flestar hjá okkur eru í skóla eða vinnu og þótt maður vilji helst ekki kalla körfuboltann áhugamál þá er það nánast þannig í samanburði við erlend félög sem eru í Evrópukeppni. Við gerðum vel með því að komast inn í riðlakeppnina og við hlökkum mjög til að fara á stærra svið,“ sagði Helena við Morgunblaðið.

Helena hefur umtalsverða reynslu af því að spila Evrópuleiki. Hún fór alla leið í undanúrslit sterkustu Evrópukeppninnar, EuroLeague, með Good Angels Kosice frá Slóvakíu. Spurð hvernig frönsku liðin hafi verið í gegnum tíðina segir hún að Frakkar eigi iðulega mörg lið í Evrópukeppnum. „Mörg frönsk lið taka þátt í Euroleague og EuroCup. Metnaðurinn er mikill hjá frönskum liðum og kvennakarfan er nokkuð hátt skrifuð. Sem dæmi þá á Tony Parker [fjórfaldur NBA-meistari] eitt lið í Frakklandi. Þegar hann setti slatta af peningum í kvennaliðið þá þurftu önnur félög að halda í við hann. Frönsku liðin eru því mjög góð og franska landsliðið eitt það fremsta í Evrópu. Í liðunum eru svo einnig bandarískir leikmenn.“

Þekkir til Brno

Helena hefur spilað á móti tékkneska liðinu Brno. „Ég hef spilað nokkrum sinnum á móti Brno. Eitt lið frá Tékklandi er í Euroleague en það er CSKA Prag. Þær eru langbestar í Tékklandi en Brno hefur verið næstbesta liðið. Þetta er flott félag og tékkneska landsliðið er gott lið. Það verður verðugt verkefni að mæta þessu liði.

Við í Haukum erum með hávaxið lið á íslenskan mælikvarða. Nú munum við mæta liðum sem eru með eina, tvær eða jafnvel þrjár sem eru yfir 1,90 metra. Þessi lið eru ábyggilega með hávaxna miðherja, hreyfanlega framherja og mjög sterka leikstjórnendur. Við erum ekki komin langt í þeirri vinnu að stúdera þessa andstæðinga því við eigum eftir að spila tvo leiki hérna heima áður en að þessu kemur. Það er því nóg að gera. Auðvitað verðum við að gera út á okkar styrkleika. Við erum með stelpur sem geta hlaupið völlinn vel og erum með frábæran leikstjórnanda. Svo verðum við stóru stelpurnar að reyna okkar besta inni í teig,“ útskýrði Helena.

Viðtalið við Helenu má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert